Vitum alveg hvað við þurfum að laga

Berglind Björg Þorvaldsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í baráttu við Málfríði Ernu …
Berglind Björg Þorvaldsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í baráttu við Málfríði Ernu Sigurðardóttur, leikmann Vals í leik liðanna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við mættum ekki nógu sterkar til leiks og náðum engum takti í spilið hjá okkur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við náðum hins vegar að jafna metin og vorum skárri í seinni hálfleik, en það er margt sem við þurfum að laga fyrir fyrsta leik í Íslandsmótinu,“ sagði Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Breiðabliks í samtali við mbl.is eftir 2:1-tap liðsins gegn Val í úrslitaleik Lengjubikars kvenna í knattspyrnu.

„Það þarf hver leikmaður að taka aðeins til hjá sjálfum sér. Við getum allar gert miklu betur og það sést langar leiðir að það eru allar hundfúlar með eigin frammistöðu. Það jákvæða er að við vitum nákvæmlega hvað við þurfum að laga og nú er bara að vinna í þeim hlutum fyrir fyrsta leik í Íslandsmótinu. Ég hef engar áhyggjur þrátt fyrir þessa döpru frammistöðu og svekkjandi tap,“ sagði Rakel enn fremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert