Páskaeggin fóru vel í menn

Daníel Leó Grétarsson fagnar marki sínu með Aalsund ásamt liðsfélögum …
Daníel Leó Grétarsson fagnar marki sínu með Aalsund ásamt liðsfélögum sínum. Ljósmynd/aafk.no

Íslenskir knattspyrnumenn voru svo sannarlega á skotskónum á öðrum degi páska í gær. „Íslensk“ mörk litu dagsins ljós í Svíþjóð, Noregi, Englandi og Hollandi.

Landsliðsmaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson átti sérstaklega góðan leik fyrir Molde sem vann Vålerenga 4:0 í 4. umferð norsku úrvalsdeildarinnar. Björn skoraði fjórða mark leiksins með skalla en hafði áður lagt upp tvö mörk. Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Molde og fyrrverandi markahrókur Manchester United, sparaði ekki stóru orðin í garð Björns eftir leikinn:

„Eins og ég hef áður sagt þá er hann í mínum huga klárlega besti leikmaður deildarinnar og ég myndi ekki skipta á honum fyrir neinn. Leikmaður af hans getustigi er auðvitað mikilvægur fyrir liðið og ræður miklu um það hvernig tímabilið okkar verður, eins og sást í þessum leik,“ sagði Solskjær.

Hinn 21 árs gamli varnarmaður og Grindvíkingur, Daníel Leó Grétarsson, skoraði sitt fyrsta deildarmark fyrir Aalesund með skalla í 3:1-sigri á Lilleström. Aron Elís Þrándarson lagði upp mark með stórkostlegri sendingu í sama leik, en þetta var fyrsti sigur Aalesund á leiktíðinni.

Árni Vilhjálmsson, Arnór Smárason og Kristinn Freyr Sigurðsson voru allir á skotskónum í sænsku úrvalsdeildinni. Arnór gerði fyrra mark Hammarby í 2:1-útisigri á AIK í slag þessara erkifjenda. Markið gerði hann eftir sendingu Birkis Más Sævarssonar. Árni skoraði í 3:1-útisigri Jönköping Södra á Kalmar, en Kristinn Freyr í 2:1-tapi Sundsvall gegn Häcken. Mark Kristins var sérstaklega glæsilegt, úr skoti utan teigs í slá og inn.

Aron Einar Gunnarsson skoraði glæsimark fyrir Cardiff í 1:0-sigri á Nottingham Forest í ensku B-deildinni, og Albert Guðmundsson tvö fyrir varalið PSV í 3:1-sigri á varaliði Ajax í hollensku B-deildinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert