Þetta sumar verður mitt sumar

Katrín Ásbjörnsdóttir fagnar Íslandsmeistaratitlinum síðasta haust.
Katrín Ásbjörnsdóttir fagnar Íslandsmeistaratitlinum síðasta haust. mbl.is/Eggert

Katrín Ásbjörnsdóttir hefur glímt við sinn skerf af meiðslum í gegnum tíðina og missti meðal annars af EM í Svíþjóð 2013 af þeim sökum. Hún er staðráðin í að blómstra með Stjörnunni í sumar og láta til sín taka á EM í Hollandi.

Katrín lék stórt hlutverk hjá Stjörnunni í fyrra þegar liðið varð Íslandsmeistari, varð næstmarkahæst í liðinu með 9 mörk, og ætlar sér enn meira í ár. Pepsi-deildin hefst annað kvöld og þá mætir Stjarnan nýliðum Hauka í Hafnarfirði.

„Ég hef aldrei verið betri, ef ég á að segja eins og er,“ sagði Katrín þegar mbl.is ræddi við hana í vikunni. „Mér líður mjög vel, hef getað æft í allan vetur án þess að sleppa úr æfingu, og það er mjög jákvætt. Ég er búin að vera að gera ákveðna hluti sem ég var ekki að gera fyrir einhverjum árum síðan, og það er að hjálpa mér helling núna, og ég veit það að þetta sumar verður mitt sumar,“ sagði Katrín. Spurð í hverju þessir „ákveðnu hlutir“ fælust, svaraði hún:

„Það er í raun hugarfarið mitt. Metnaðurinn gagnvart fótbolta er orðinn mikið meiri en hann var. Það eru margir litlir hlutir sem munu hjálpa mér að gera eitthvað stórt í sumar. Ég vil ná lengra. Ég er langt frá því að vera sátt við það hvar ég er stödd núna og vil ná hærra.“

Katrín hefur glímt við sinn skerf af meiðslum á ferlinum …
Katrín hefur glímt við sinn skerf af meiðslum á ferlinum og missti meðal annars af EM 2013. Carlos Vidigal/Algarvephotopress

Í þessu sambandi má nefna að Katrín hefur átt fast sæti í íslenska landsliðshópnum undanfarið og leikið níu landsleiki í vetur. Hún ætlar sér til Hollands í júlí og vill gera meira en að vera bara á bekknum: „Það er auðvitað markmiðið. Ég sé fram á að vera í þessum EM-hópi og ætla mér að gera góða hluti á EM fyrir landsliðið.“

Íslandsmeisturunum er spáð 3. sæti í Pepsi-deildinni í ár. Katrín segir ekki hægt að hneykslast á þeirri niðurstöðu:

„Þessi spá er í samræmi við gengi okkar í vetur. Við komumst ekki í undanúrslit í Lengjubikar sem er í raun og veru skandall fyrir Stjörnuna. Það kemur ekki á óvart að okkur sé spáð 3. sætinu en við munum sanna það í sumar að við eigum heima ofar.“

Stjarnan verður án fyrirliða síns, Ásgerðar Stefaníu Baldursdóttur, í allt sumar þar sem hún er barnshafandi og markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir missir af byrjun mótsins eftir að hafa eignast son í lok febrúar. Ásgerður og Harpa hafa verið í algjörum lykilhlutverkum hjá Stjörnunni í mörg ár:

Harpa Þorsteinsdóttir og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir verða ekki með Stjörnunni …
Harpa Þorsteinsdóttir og Ásgerður Stefanía Baldursdóttir verða ekki með Stjörnunni í upphafi tímabils og Ásgerður ekkert í sumar. mbl.is/Eggert

„Auðvitað skiptir þetta máli. Adda er drottning kvennaboltans og þú finnur ekki betri karakter en hana, en hún fær bara nýtt hlutverk núna og verður áfram mikilvæg þótt hún sé utan vallar. Við munum heyra vel í henni af bekknum. Varðandi Hörpu þá gefum við henni tíma og hún þarf bara að sjá hvað hún getur gert í sumar. Við erum með mikla breidd í liðinu, enn þá mikla markaskorara og góða framlínu, svo við erum vongóð fyrir sumarið,“ sagði Katrín, en Stjarnan fékk í vetur til að mynda Guðmundu Brynju Óladóttur, landsliðskonu frá Selfossi:

„Gumma lítur mjög vel út og hefur verið að spila vel á undirbúningstímabilinu. Það er mikill kraftur í henni og hún hefur skorað helling af mörkum fyrir okkur, og mér finnst hún eiginlega í sínu besta formi á ferlinum. Það er mikill fengur að fá hana og við höfum náð að tengjast betur, ég og hún, þar sem ég spila aðeins fyrir aftan hana. Við erum alltaf að bæta spilið og það er frábært að hafa fengið hana. Svo erum við líka með stelpur á köntunum og á bekknum sem geta komið inn og skorað mörk. Það verður engin markaþurrð hjá Stjörnunni í sumar,“ sagði Katrín.

Katrín og stöllur börðust við Breiðablik fram í síðustu umferð …
Katrín og stöllur börðust við Breiðablik fram í síðustu umferð um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert