„Erum allar með sama markmið“

Heiðdís Sigurjónsdóttir, hér fyrir miðri mynd.
Heiðdís Sigurjónsdóttir, hér fyrir miðri mynd. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við náðum ekki alveg að sýna hvað við getum, sérstaklega einum færri, en það eru þrjú stig sem skipta máli,“ sagði Heiðdís Sigurjónsdóttir, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 1:0-sigur á FH í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

Eftir markalausan fyrri hálfleik kom fyrirliðinn Rakel Hönnudóttir Blikum yfir strax í upphafi þess síðari. Heiðdís segir að þá hafi þungu fargi verið létt af liðinu.

„Já, það var þvílíkur léttir. Við náum að gera það sem við ætluðum að gera og spila einfalt, en svo þegar hún [Ingibjörg Sigurðardóttir] fékk rauða spjaldið þá var það svolítið erfitt og við náðum ekki að halda því áfram,“ sagði Heiðdís, en Ingibjörg fékk sitt annað gula spjald þegar um tuttugu mínútur voru eftir.

„Mér fannst þetta frekar hörð dómgæsla. Þetta voru einu brotin hennar og hún fékk strax gult eftir fyrsta, enga aðvörun. Svo mér fannst þetta frekar hart,“ sagði Heiðdís. En hvernig finnst henni Blikaliðið koma undan vetri?

„Bara mjög vel. Hópurinn er mjög flottur og við erum allar með sama markmið og stöndum vel saman,“ sagði Heiðdís Sigurjónsdóttir við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert