Fylgist með hægri bakvörðum og læri

Rakel Hönnudóttir er fyrirliði og lykilmaður í liði Breiðabliks.
Rakel Hönnudóttir er fyrirliði og lykilmaður í liði Breiðabliks. mbl.is/Eggert

Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Breiðabliks, gegnir lykilhlutverki á miðjunni hjá sínu félagsliði en berst á sama tíma um sæti í stöðu hægri bakvarðar hjá landsliðinu fyrir EM í Hollandi í sumar.

Blikakonur mæta FH á Kópavogsvelli kl. 19.15 í kvöld í 1. umferð Pepsi-deildarinnar. Í árlegri spá sem kynnt var í vikunni var Breiðabliki spáð 2. sæti deildarinnar en Val Íslandsmeistaratitlinum:

„Það voru tvö stig á milli okkar og Vals í spánni, og Stjarnan svo rétt á eftir okkur. Þetta verður svona spennandi deild held ég. Það er mjög stutt á milli þessara liða, og svo eru Þór/KA og ÍBV líka með sterkt lið og KR búið að fá til sín góða leikmenn fyrir sumarið. Það er aldrei að vita hvernig þetta fer,“ segir Rakel.

Breiðablik hefur misst tvær landsliðskonur úr vörninni hjá sér, þær Hallberu Guðnýju Gísladóttur sem fór til Svíþjóðar og Málfríði Ernu Sigurðardóttur sem fór til Vals:

„Við misstum tvo varnarmenn en fengum líka tvo varnarmenn í staðinn [Samantha Lofton og Heiðdís Sigurjónsdóttir]. Þær eru bara búnar að standa sig vel. Við sáum á leikjunum á móti Val hve jafnt þetta verður. Við unnum þær 2:1 í riðlakeppninni í Lengjubikarnum og þær unnu okkur svo 2:1 í úrslitaleiknum. Þetta verður svona spennandi. Þó að við höfum svo unnið Stjörnuna 3:0 í meistarakeppninni þá eru þær líka með sterkt lið. Þetta verður hörkudeild,“ segir Rakel.

Einbeiti mér að einu í einu

Rakel á að baki 81 A-landsleik og hefur farið með landsliðinu á bæði stórmótin sem það hefur leikið á til þessa; EM 2009 og EM 2013. Hún verður án efa í EM-hópnum sem fer til Hollands í júlí en í landsliðinu berst hún um stöðu hægri bakvarðar. Elísa Viðarsdóttir lék oftar í þeirri stöðu í undankeppni EM en fer ekki á mótið eftir að hafa slitið krossband í hné.

„Það er alltaf aftast í hausnum að maður sé að fara á EM, en maður þarf að ná að einbeita sér að einu í einu. Núna hugsar maður bara um Pepsideildina, svo kemur landsleikjahlé í júní, aftur Pepsideildin og svo er það EM. Maður þarf bara að halda sér í góðu standi og reyna að einbeita sér að einu í einu,“ segir Rakel.

„Að sjálfsögðu vill maður byrja alla landsleiki. Ég held að Freyr sjái mig sem hægri bakvörð. Ég spila sem miðjumaður í Breiðabliki en reyni að fylgjast með hægri bakvörðum og læra betur og betur á þá stöðu líka,“ segir Rakel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert