Rakel hetja Breiðabliks í fyrsta leik

Samantha Lofton úr Breiðabliki með boltann í leiknum í kvöld.
Samantha Lofton úr Breiðabliki með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Breiðablik vann FH í fyrstu umferð Pepsi-deildar kvenna sem fram fór á iðagrænum Kópavogsvellinum í kvöld. Það var fyrirliðinn Rakel Hönnudóttir sem tryggði Blikum 1:0 sigur með marki snemma í síðari hálfleiks.

Fyrri hálfleikur var frekar tíðindalítill. Blikar áttu góða spretti um miðjan hálfleikinn og langbesta færið fékk Berglind Björg Þorvaldsdóttir þegar hún slapp ein í gegn en skot hennar fór framhjá markinu. Staðan markalaus í hálfleik.

Það dró hins vegar til tíðinda strax í upphafi síðari hálfleiksins. Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Blika, vann þá boltann í miðjum vítateig FH og kom boltanum framhjá hinni bandarísku Lindsey Harris og í netið. Staðan 1:0 fyrir Breiðablik.

Eftir það hresstust FH-ingar nokkuð en lítið var hins vegar um færi. Aftur dró svo til tíðinda þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir þegar miðvörðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir í liði Blika fékk að líta sitt annað gula spjald fyrir tæklingu á miðjum vellinum.

Ekki náðu Hafnfirðingar þó að nýta sér liðsmuninn og Blikar héldu út einum færri. Lokatölur 1:0 og Breiðablik byrjar tímabilið því á þremur stigum.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Breiðablik 1:0 FH opna loka
90. mín. Áhorfendur á þessum leik eru 387 segir vallarþulurinn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert