Stephany Mayor best í deildinni

Stephany Mayor sækir að marki Vals í leiknum í kvöld.
Stephany Mayor sækir að marki Vals í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

„Ég er mjög hamingjusamur með stelpurnar. Þær lögðu mikla vinnu í þennan leik. Það var vinnusemin og framlag leikmannanna sem skilaði þessum sigri í hús," sagði Halldór Jón Sigurðsson, eða Donni eins og hann er kallaður, þjálfari Þórs/KA eftir 1:0 sigur á Val í fyrsta leik tímabilsins í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu. 

Valskonur lágu þungt á heimakonum í seinni hálfleiknum. Donni var þó sáttur við spilamennsku liðsins.

„Mér fannst þær ekki skapa neitt nema einhver horn í seinni hálfleik þrátt fyrir að þær hafi legið á okkur. En mér fannst við vera betra liðið í fyrri hálfleik. Það þurfti í raun duglegheit í seinni hálfleik til að klára þetta og leikmenn mínir skiluðu því frá sér fullkomlega.“ 

Stephany Mayor skoraði sigurmark leiksins og var Donni mjög ánægður með hennar framlag í dag:

„Stephany Mayor er besti leikmaðurinn í deildinni. Hún er algjörlega frábær leikmaður. Hún skilaði þessu marki í dag en burtséð frá því skilaði hún inn gríðarlegri vinnusemi sem að smitar út frá sér. Hún er ekki bara frábær leikmaður heldur líka frábær karakter.“ 

Þrátt fyrir deilur um framtíð liðsins í vetur virtist það ekki hafa nein áhrif í dag og var mjög vel mætt á leikinn. Donni var að vonum ánægður með það.

„Það var frábær mæting í dag og það skilaði miklu inn á völlinn og ég er gríðarlega hamingjusamur með það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert