Stjarnan skoraði fimm og Fylkir vann

Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvö mörk og lagði upp tvö fyrir …
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvö mörk og lagði upp tvö fyrir Stjörnuna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslandsmeistarar Stjörnunnar í knattspyrnu kvenna hófu titilvörnina í kvöld með því að sigra nýliða Hauka, 5:1, á Ásvöllum. 

Guðmunda Brynja Óladóttir og Katrín Ásbjörnsdóttir komu Stjörnunni í 2:0 á fyrstu 20 mínútunum. Katrín skoraði úr vítaspyrnu eftir að Sunna Líf Þorbjörnsdóttir úr Haukum fékk rauða spjaldið.

Tíu leikmenn Hauka náðu samt að minnka muninn þegar Vienna Behnke skoraði á 38. mínútu, 2:1. Þannig var staðan þar til 12 mínútur voru eftir en Stjarnan gerði þrjú mörk á lokakaflanum. Katrín og Guðmunda skoruðu aftur sitt markið hvor og Írunn Þorbjörg Aradóttir gerði fimmta markið í lokin. Katrín lagði upp tvö mörk auk þess að skora tvö.

Fylkir vann Grindavík, 1:0, á gervigrasvellinum í Árbænum. Jasmín Erla Ingadóttir, sem missti af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla, skoraði sigurmarkið á 37. mínútu.

Upplýsingar um atvik leikjanna eru af urslit.net og fotbolti.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert