„Ég held að þetta verði mjög jafnt“

Heimir Guðjónsson tolleraður eftir að FH hampaði Íslandsmeistaratitlinum.
Heimir Guðjónsson tolleraður eftir að FH hampaði Íslandsmeistaratitlinum. mbl.is/Golli

„Það væri frábært ef þetta yrði svona þegar tímabilið er búið,“ sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, í samtali við mbl.is eftir að spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna Pepsi-deildarinnar var kynnt í dag. FH-ingum var þar spáð titlinum.

„Vitum það að spá er bara spá og það þarf að spila þetta mót. Við munum mæta hörkugóðum liðum og ég held að deildin verði mjög sterkt. Mörg lið hafa styrkt sig vel og það er mikið af góðum leikmönnum í deildinni svo ég held að þetta verði mjög jafnt,“ sagði Heimir.

Talað er um fyrir tímabilið að fimm lið gætu hæglega blandað sér í baráttuna um Íslandsmeistaratitilinn.

„Ég er sammála því, en það er líka alltaf eitthvað lið sem kemur á óvart og ég held að það verði KA í sumar. Það er gríðarlega vel mannað lið með flott skipulag og ég held að þeir muni koma á óvart í sumar,“ sagði Heimir.

„Við stefnum alltaf að því að vera í toppbaráttunni, en vitum það núna að við þurfum bara að einbeita okkur að fyrsta leik sem er gegn ÍA á sunnudaginn. Það er alveg nóg fyrir okkur í bili og svo heldur mótið áfram,“ sagði Heimir Guðjónsson við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert