Vildi helst vera spáð neðsta sætinu

Óli Stefán Flóventsson og Róbert Haraldsson, þjálfarar meistaraflokka Grindavíkur.
Óli Stefán Flóventsson og Róbert Haraldsson, þjálfarar meistaraflokka Grindavíkur. Ljósmynd/umfg.is

„Það er engin pressa og engin vonbrigði heldur höfum við allt að vinna,“ sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari Grindavíkur, í samtali við mbl.is eftir að í ljós kom að nýliðunum er spáð 11. sæti og falli úr Pepsi-deild karla í knattspyrnu í sumar af þjálfurum, fyrirliðum og forráðamönnum deildarinnar.

„Ég held að menn geri sér ekki alveg grein fyrir því hvernig lið við erum. Ég held að á þeim grundvelli getum við komið svolítið á óvart, en ég held að þetta sé samt ekkert vanmat heldur eðlileg spá,“ sagði Óli Stefán, sem vildi raunar að liðinu væri spáð neðsta sætinu.

„Við erum nýliðar og kannski svolítið óþekkt stærð á þessu sviði. Þetta er því eðlilegt myndi ég halda, en ef ég á að vera alveg heiðarlegur þá var ég að vona að við fengjum bara 12. sætið í spánni. Það er hægt að nota það og ég mun gera það,“ sagði Óli.

Hann hefur verið að glíma við mikil meiðsli síðustu vikur en sér nú fyrir endann á því. Alls voru sex leikmenn fjarri góðu gamni.

„Þeir eru óðum að koma til baka. Þrír hófu fullar æfingar á mánudaginn og það er bara jákvætt. Það er stutt í hina þrjá sem voru frá svo það er bara spurning hvort þeir nái fyrsta leik eða ekki. Það er fagnaðarefni að þeir séu allir að koma til baka,“ sagði Óli Stefán við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert