Valsmenn bestir allra í vetur og vor

Sigurður Egill Lárusson úr Val sendir fyrir mark FH í …
Sigurður Egill Lárusson úr Val sendir fyrir mark FH í leik liðanna í Meistarakeppni KSÍ á dögunum. Valur vann 1:0. mbl.is/Árni Sæberg

Valsmenn koma sterkastir til leiks á Íslandsmótinu 2017, ef marka má frammistöðu liðanna á undirbúningstímabilinu. Hlíðarendaliðið vann níu af ellefu mótsleikjum sínum frá janúar og fram í apríl og bar þar af sigur úr býtum í sjö síðustu leikjunum.

Sigurgönguna kórónuðu Valsmenn með því að leggja Íslandsmeistara FH, 1:0, í Meistarakeppni KSÍ á Valsvellinum mánudaginn 24. apríl með marki fyrirliðans, Hauks Páls Sigurðssonar.

Lærisveinar Ólafs Jóhannessonar unnu alla fimm leiki sína í Lengjubikarnum en þar sem þeir voru á leið í æfingaferð hættu þeir við þátttöku í úrslitakeppni mótsins. Þá urðu þeir Reykjavíkurmeistarar með því að vinna Fjölni 1:0 í úrslitaleik.

KR og FH skammt undan

Ekki munaði þó miklu á Val, KR og FH í vetrar- og vorleikjunum. Eins og sjá má á töflu sem er birt í sérblaði Morgunblaðsins, Fótboltinn 2017, sem fylgdi því í gær fékk Valur 28 stig, KR 26 og FH 25 stig út úr mótsleikjunum á þessum tíma. KR lék 13 leiki, FH 12 og Valur 11 leiki.

FH vann Fótbolta.net mótið sem lauk í byrjun febrúar og KR varð sigurvegari í Lengjubikarnum sem lauk um miðjan apríl.

Þessi þrjú félög sem margir spá þremur efstu sætunum á komandi tímabili unnu því öll mót á undirbúningstímabilinu.

Stjarnan tapaði ekki leik

Stjarnan kemur næst á eftir þessum þremur en Garðabæjarliðið var eina lið Pepsi-deildar karla sem tapaði ekki mótsleik í vetur og vor. Stjörnumenn gerðu hinsvegar fjögur jafntefli og misstu af því að komast áfram úr riðlakeppni Lengjubikarsins á óhagstæðri markatölu. Þá töpuðu þeir úrslitaleik Fótbolta.net mótsins gegn FH í vítaspyrnukeppni eftir 2:2 jafntefli.

*Skagamenn fengu á sig 19 mörk í sjö leikjum gegn úrvalsdeildarliðum en unnu þó þrjá af þessum leikjum.

*Grindvíkingar gerðu sex jafntefli í níu leikjum við úrvalsdeildarlið en unnu aðeins einn þeirra. Það var 4:1 sigur á Skagamönnum í átta liða úrslitum Lengjubikarsins.

*KA mætti aðeins þremur úrvalsdeildarliðum í mótsleikjunum í vetur og vor og markatalan í þeim var 2:2. KA tapaði fyrir Magna í Norðurlandsmótinu en vann FH í Lengjubikarnum.

*Breiðablik náði ekki að vinna annað úrvalsdeildarlið í mótsleik og fékk aðeins þrjú stig af átján mögulegum gegn þeim. Blikar gerðu hinsvegar fimmtán mörk í fjórum sigurleikjum gegn liðum úr 1. deild.

*Víkingur frá Ólafsvík fékk aðeins eitt stig í fimm leikjum gegn öðrum liðum í deildinni. Það kom í fyrsta leik Fótbolta.net mótsins gegn Grindavík í janúar.

*Ólafsvíkingar töpuðu auk þess þremur af fjórum mótsleikjum sínum gegn 1. deildarliðum í vetur.

Kristján Flóki og Óskar

Heitustu sóknarmenn vetrarins voru Kristján Flóki Finnbogason úr FH og Óskar Örn Hauksson úr KR.

Kristján Flóki skoraði 10 mörk í mótsleikjum FH fyrir tímabilið og komst á blað í átta af ellefu leikjum liðsins.

Óskar skoraði í fimm síðustu leikjum KR í Lengjubikarnum, samtals sjö mörk, og gerði 9 mörk alls í mótsleikjum Vesturbæinga.

Þórir Guðjónsson úr Fjölni varð þriðji markahæsti maður vetrarins en hann gerði 7 mörk í mótsleikjum Grafarvogsliðsins.

Sjö mörk í þremur leikjum

Sigurður Egill Lárusson úr Val gerði líka 7 mörk en þau komu öll í þremur leikjum liðsins í Lengjubikarnum. Þar af gerði hann þrennu gegn ÍA.

William Daniels, bandaríski framherjinn hjá Grindavík, var skammt undan með 6 mörk fyrir nýliðana í deildinni.

Kennie Chopart skoraði líka 6 mörk fyrir KR-inga.

Þessi grein er úr Fótboltinn 2017, sérblaðinu um Pepsi-deild karla, sem fylgdi Morgunblaðinu í gær, föstudaginn 28. apríl og þar má sjá töflur yfir gengi liðanna í mótsleikjum vetrarins, bæði í öllum leikjum og svo innbyrðis á milli liða Pepsi-deildarinnar. Einnig alla sem skoruðu 2 mörk og meira í mótsleikjum vetrarins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert