„Alls ekki lakari leikmannahópur“

Egill Jónsson sækir að Baldri Sigurðssyni í leik á móti …
Egill Jónsson sækir að Baldri Sigurðssyni í leik á móti Stjörnunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Egill Jónsson, leikmaður Víkings í Ólafsvík, segir að æfingaferðin til Spánar hafi gert liðinu afar gott enda æfði leikmannahópurinn ekki saman í vetur. 

Víkingur mætir Val á Hlíðarenda í kvöld í 1. umferð Pepsí-deildar karla í knattspyrnu, klukkan 19.15.

„Við fórum í góða æfingaferð til Spánar þar sem við náðum að stilla saman strengi og erum nýkomnir heim. Hópurinn hefur verið tvískiptur í allan vetur og æfingaferðin gerði okkur því gott. Vonandi komum við þar af leiðandi samstilltir inn í mótið,“ sagði Egill en með tvískiptum hóp á hann við að hluti leikmanna æfði í Ólafsvík í vetur og hluti í Reykjavík. 

„Við erum með svolítið breytt lið og þurfum að byggja leikstílinn út frá þeim leikmönnum sem við erum með og þeim takmörkunum sem veturinn hefur sett okkur. Leikmannahópurinn er frábrugðinn hópnum í fyrra en alls ekki lakari. Við höfum fengið góða menn eins og Guðmund Stein og fleiri,“ sagði Egill og eftir að mbl.is ræddi við hann hafa tveir Spánverjar bæst við leikmannahópinn. 

Ólafsvíkingar enduðu Íslandsmótið á leiðinlegum nótum í fyrra því seinni umferðin reyndist liðinu erfitt eftir að Víkingur hafði sýnt frábæra leiki framan af. „Í þessu tilfelli sakar svo sem ekki hvað veturinn er langur. Eftir mótið í fyrra þá núllstilla menn sig bara. Nú byrja öll lið með 0 stig og það gerir ekkert fyrir okkur að hugsa um mótið í fyrra,“ sagði Egill Jónsson enn fremur í samtali við mbl.is en hann verður að öllum líkindum mikilvægur hlekkur á miðjunni hjá Víkingi eins og undanfarin ár. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert