Bensín á eldinn að við séum talaðir niður

Garðar Gunnlaugsson.
Garðar Gunnlaugsson. mbl.is/Eva Björk

Garðar Bergmann Gunnlaugsson, framherjinn skæði hjá ÍA, var markakóngur Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í fyrra. Hann skoraði þá 14 mörk í deildinni og var langmarkahæstur Skagamanna en er viss um að ungu strákarnir í liðinu muni hjálpa til við markaskorunina í ár.

Skagamenn taka á móti Íslandsmeisturum FH í fyrstu umferð deildarinnar á Akranesi í dag klukkan 17.00.

„Ég er alveg sannfærður um að Tryggvi [Hrafn Haraldsson] og þeir eigi eftir að negla inn mörgum mörkum. Ég er ekki búinn að skora mikið á undirbúningstímabilinu, þeir hafa séð um það ungu strákarnir, svo þetta lítur bara vel út,“ sagði Garðar við mbl.is og markmiðið er klárt á Skaganum.

„Markmiðið er alltaf að gera betur en í fyrra. Þetta er þriðja árið núna sem við erum uppi og það er mikilvægt að styrkja stöðu liðsins á meðal þeirra bestu,“ sagði Garðar, en ÍA hafnaði í 8. sæti á síðustu leiktíð.

Skagamenn treysta mikið á unga heimastráka og telja margir það vera mjög virðingarmikla stefnu, þótt spurningarmerki sé hvort það geti komið liðinu aftur í hóp þeirra bestu.

„Við vorum með fimm leikmenn í síðasta úrtaki hjá U21 árs landsliðinu og svo í yngri landsliðunum líka. Svo það eru ákveðin kynslóðaskipti í gangi núna. Það eru ég og Palli [Páll Gísli Jónsson] og Ingvar Kale sem eru elstir og það er svolítið langt í næstu menn. En það er bara gaman að því,“ sagði Garðar.

Garðar Gunnlaugsson fagnar einu af fjórtán mörkum sínum í Pepsi-deildinni …
Garðar Gunnlaugsson fagnar einu af fjórtán mörkum sínum í Pepsi-deildinni síðasta sumar. mbl.is/Ófeigur

Mikill missir að Ármanni Smára

Fyrirliðinn Ármann Smári Björnsson, einn helsti leiðtogi liðsins síðustu ár, varð fyrir því óláni að slíta hásin seint á síðasta tímabili. Það þýðir margra mánaða fjarvera og Ármann ákvað að leggja skóna á hilluna eftir langan feril. Hvernig kom það við liðið?

„Þetta var smá sjokk að hann skuli hafa hætt. Við bjuggumst við að fá hann inn um mitt sumar. Það er líka mikill missir að honum í klefanum, þar sem hann lítur öðru hvoru við og láti okkur aðeins heyra það. En þetta þýðir bara að ungi strákarnir og við sem erum eldri þurfum að stíga upp,“ sagði Garðar.

Skagamönnum er spáð 10. sætinu af þjálfurum, fyrirliðum og forráðamönnum í deildinni en Garðar segir að það kveiki bara enn frekar í liðinu.

„Það er bara bensín á eldinn fyrir okkur að það sé verið að tala okkur niður. Við erum alveg ákveðnir í því að troða sokki upp í allar slíkar spár,“ sagði Garðar Bergmann Gunnlaugsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert