Fótboltinn á að vera fyrir alla

Atli Guðnason og Arnar Már Guðjónsson mætast í fyrstu umferðinni …
Atli Guðnason og Arnar Már Guðjónsson mætast í fyrstu umferðinni á Akranesi í þegar þegar ÍA tekur á móti FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sennilega eru flestir sammála um það að Íslandsmótið 2016 hafi verið með daufara móti, allavega hvað varðar keppnina í Pepsi-deild karla. Einhverra hluta vegna náðist aldrei upp sama stemning og svo oft á undanförnum árum.

Kannski var einum of ljóst alltof snemma að FH fengi ekki alvöru keppni um meistaratitilinn. Kannski varð hinn magnaði árangur karlalandsliðsins í Evrópukeppninni til þess að draga úr áhuganum á mótinu heima fyrir. Orka margra knattspyrnuáhugamanna fór í Frakklandsævintýrið og deildin heima var sett í annað sætið.

En kannski hafa forystumenn íslenska fótboltans líka sofið aðeins á verðinum. Það er í þeirra höndum að gera sína söluvöru, fótboltann og deildina, áhugaverða í augum almennings. Fá hinn almenna fótboltaáhugamann til að koma reglulega á völlinn, mæta alltaf á heimaleikina hjá sínu félagi. Ekki bara stundum, þegar vel viðrar og vel gengur, eða þegar bikarlyfta er á dagskránni.

Aðsókn á leikina á síðasta ári var minni en flest tímabilin þar á undan. Tvö af síðustu þremur árum hafa verið með dræmari aðsókn en flest önnur á þessari öld.

Er þá rétt að bregðast við því á þann hátt að hækka miðaverðið um þriðjung? Ég er ekki viss. Fást ekki meiri tekjur með hóflegra miðaverði? Fleiri mæta á völlinn og hagnaður af veitingasölu eykst. Einhvern veginn hljómar það módel betur. Fótboltinn þarf að vera fyrir alla – þeir sem hafa lítil auraráð eiga ekki að missa af honum vegna þess hve dýrt er á völlinn. Þeir sjá hann þá ekki heldur af sömu sökum, læstan inni á áskriftarstöð.

Ég sé hinsvegar batamerki í niðurröðun mótsins. Leikjunum er dreift aðeins betur en undanfarin ár. Það er ekki fyrr en seint í júlí sem kemur að heilli umferð á sama deginum. Reyndar er einn leiðinda sunnudagur snemma með fimm leikjum á dagskránni. Knattspyrnuforystan gerir fátt betra til að auglýsa fótboltann en að hafa hann dreifðan á sem flesta daga. Láta hvern leik fá eins mikla athygli og mögulegt er, í stað þess að hverfa í fjöldann þegar fimm eða sex leikir fara fram í einu. Það er meira en nóg að spila tvær síðustu umferðirnar á haustin í heilu lagi. Ætti reyndar að duga að hafa síðustu umferðina þannig.

En það eru allar forsendur til staðar fyrir skemmtilegri keppni í Pepsi-deild karla í sumar. Sem fyrr verður þetta spurning um hverjir haldi í við FH-ingana og veiti þeim keppni en markmið Hafnfirðinganna er ótvírætt það að hreppa Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð. Og þeir hafa burði til þess, eins og áður.

Barátta um Evrópusæti, slagurinn um að halda velli í deildinni, bikarkeppnin, Evrópuleikirnir og allt hitt. Spennan verður vonandi sem mest á flestum vígstöðvum.

Boltinn rúllar af stað í deildinni í dag. Við á Morgunblaðinu og mbl.is erum klár í slaginn. Í árlegu blaði okkar um deildina og keppnistímabilið sem nú fer í hönd, Fótboltinn 2017, sem fylgdi Morgunblaðinu á föstudaginn, er að finna alls kyns upplýsingar um liðin og leikmennina ásamt fjölmörgu öðru. Geymið blaðið, það kemur áhugamönnum að góðum notum allt tímabilið.

Gleðilegt sumar!

Þessi grein er úr Fót­bolt­inn 2017, sér­blaði um Pepsi-deild karla sem fylgdi Morg­un­blaðinu á föstudaginn en þar er fjallað ít­ar­lega um deild­ina sem hefst í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert