Gunnar Heiðar er heill heilsu

Gunnar Heiðar Þorvaldsson í leik á móti Fjölni.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson í leik á móti Fjölni. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Markahrókurinn Gunnar Heiðar Þorvaldsson er tilbúinn í slaginn sem spilandi aðstoðarþjálfari ÍBV eftir full rólegt tímabil í fyrra vegna meiðsla. 

ÍBV fær Fjölni í heimsókn í 1. umferð Pepsí-deildarinnar í dag en leikurinn hefst kl. 17.00 á Hásteinsvelli.

„Mér líst mjög vel á hópinn og andinn er góður. Á undirbúningstímabili er það stundum þannig að menn eru liggur við komnir með ógeð hver af öðrum eftir langan vetur en andinn hefur haldist góður. Stemningin í liðinu er það góð að ég held að allir hlakki til að fara á æfingar,“ sagði Gunnar þegar mbl.is tók púlsinn á honum og segist finna sig jafnvel betur í aðstoðarþjálfarahlutverkinu en hann reiknaði með. 

„Það hefur komið mér á óvart hversu vel ég fíla þetta. Ég ætlaði fyrst að sjá til hvort ég gæti miðlað minni reynslu og hvort þetta væri eitthvað sem hentaði mér. Það hefur gengið vel að mér finnst og flestir peyjanna hafa sagt við mig að þetta gangi nokkuð vel. Þessir yngri eru sérstaklega ánægðir með að ég sé að miðla af minni reynslu til þeirra. Kristján er að ég held ánægður með að ég komi inn með aðra hugsun en verið hefur hérna á Íslandi. Í sameiningu höfum við getað fundið einhvern grundvöll og ég tel að samstarfið við Kristján og leikmenn hafi gengið vel.

Þegar mér var boðið þetta hlutverk þá nefndi ég það strax við leikmenn að sú staða gæti komið upp að erfitt gæti verið að vera bæði aðstoðarþjálfari og leikmaður. Ég vona bara að leikmenn beri virðingu fyrir því að maður sé að reyna að gera sig besta fyrir liðið og okkur alla.“

Gunnar segir að þeir leikmenn sem hafi komið til ÍBV í vetur séu góðir persónuleikar. „Já þeir eru ekki bara góðir leikmenn heldur góðir persónuleikar sem eru tilbúnir að leggja sig 100% fram á hverri einustu æfingu. Eru heldur ekki að kvarta yfir lífinu í Vestmannaeyjum eða ferðalögunum. Andinn er góður í hópnum og mér finnst það skipta miklu máli,“ sagði Gunnar sem er heill heilsu um þessar mundir. 

„Í fyrra fór ég í uppskurð og hefði þannig séð þurft eitt undirbúningstímabil til að styrkja mig og gera það sem þarf að gera. Í fyrra var ekki tími til þess og ég þurfti að henda mér út í djúpu laugina til að geta hjálpað liðinu á lokakaflanum. Sem betur fer gekk það upp og núna hef ég fengið tíma til að koma mér í stand. Ég hef nú tekið þátt í öllum æfingum síðan í febrúar og finn að ég hef enn þá eitthvað að gera inni á vellinum. Ég gæti kannski orðið „old dark horse“ í sumar eða eitthvað svoleiðis,“ sagði Gunnar Heiðar og hló en hann hefur skorað nokkurn veginn í öðrum hvorum leik fyrir ÍBV á ferli sínum í efstu deild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert