Með nóg af mönnum til að skora

Haukur Páll Sigurðsson og félagar í Val eru bikarmeistarar og …
Haukur Páll Sigurðsson og félagar í Val eru bikarmeistarar og unnu FH í Meistarakeppni KSÍ á dögunum. En berjast þeir um Íslandsmeistaratitilinn í ár? mbl.is/Árni Sæberg

„Það kemur smákitl í magann og spenningur í menn á þessum tíma, eftir langt og erfitt undirbúningstímabil,“ segir Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, en liðið mætir Víkingi Ólafsvík í kvöld kl. 19.15 í 1. umferð Pepsideildar karla í knattspyrnu.

Valsmenn hafa orðið bikarmeistarar síðustu tvö ár og þannig satt sigurhungrið að vissu leyti. Hins vegar hefur liðið þurft að sætta sig við 5. sæti í Pepsideildinni síðustu ár og það er ekki nægilega gott að mati Hauks og félaga:

„Maður er í þessu til að berjast um titla og það er geggjað að vinna bikarinn. Ég myndi ekkert slá á móti því að vinna hann aftur. En auðvitað viljum við líka vera ofar í deildinni og berjast aðeins um þetta,“ segir Haukur.

Valsmenn misstu í vetur besta leikmann síðasta Íslandsmóts, Kristin Frey Sigurðsson, en hann skoraði 13 mörk í fyrra sem sóknarsinnaður miðjumaður. Það hefur eflaust sín áhrif á liðið.

Valsliðið sem vann Meistarakeppni KSÍ á dögunum.
Valsliðið sem vann Meistarakeppni KSÍ á dögunum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er leiðinlegt að missa Kidda, því hann er líka mjög góður vinur minn, en ég samgleðst honum bara með að komast í atvinnumennsku og nú þurfa aðrir að taka keflið. Ég hef fulla trú á að bæði þeir sem fyrir eru, og svo þeir sem hafa komið, geri það. Ég held að hans brotthvarf hafi ekki mikil áhrif á hvernig fótbolta við spilum, en það verður bara að koma í ljós,“ segir Haukur.

Hansen var óheppinn í fyrra

Fyrir utan Kristin voru þeir Kristinn Ingi Halldórsson og Sigurður Egill Lárusson markahæstir hjá Val í fyrra með 6 mörk hvor. Þurfa Valsmenn meiri markaskorara í sínar raðir?

„Ég hef tröllatrú á þeim strákum sem eru að spila frammi í okkar liði. Við erum með danska framherjann Nikolaj Hansen sem var kannski frekar óheppinn síðasta sumar. Hann meiddist þá í Meistarakeppninni og missti af byrjun tímabilsins, kom svo inn og skoraði 5-6 mörk, en þríkinnbeinsbrotnaði svo í Evrópuleik og missti af restinni af tímabilinu. Þar erum við með strák sem kann alveg að skora mörk og vonandi sýnir hann það í sumar,“ segir Haukur.

Nikolaj Hansen var afar óheppinn með meiðsli í fyrra.
Nikolaj Hansen var afar óheppinn með meiðsli í fyrra. mbl.is/Golli

„Svo erum við líka með stráka eins og Kristin Inga sem skorar alltaf sín mörk. Þetta kannski dreifist meira núna en undanfarin ár, eftir að við vorum með Patrick [Pedersen] og Kidda [Kristin Frey Sigurðsson], sem skoruðu flest mörk, en við erum með nóg af mönnum til að skora,“ segir Haukur.

Þó að Kristinn sé farinn er kjarninn í Valsliðinu sá sami og fyrr, og breytingarnar ekki miklar á milli ára:

„Það er auðvitað mjög gott. Það er aldrei gott þegar þarf að hrókera mikið á milli ára eða inni í tímabili, svo við erum ánægðir með að halda okkar kjarna,“ segir Haukur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert