Mörg lið sem ætla að velta okkur úr sessi

Davíð Þór Viðarsson lyftir bikarnum á loft í fyrra.
Davíð Þór Viðarsson lyftir bikarnum á loft í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Síðustu tvö árin hefur Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, hampað Íslandsmeistaratitlinum og enn eitt árið er því spáð að FH-ingar séu líklegir til afreka í sumar og landi titlinum eftirsótta.

FH-ingar hefja titilvörnina í dag þegar þeir mæta Skagamönnum á Akranesi klukkan 17.

„Við erum búnir að vera Íslandsmeistarar síðustu tvö árin og markmið okkar FH-inga eru þau sömu og hafa verið mörg undanfarin ár. Við stefnum á titilinn. Við vorum með mjög sterkt lið í fyrra og það er ekki síðra í ár. Þeir leikmenn sem við höfum fyrir tímabilið hafa fallið vel inn í hópinn og henta vel inn í það sem við höfum verið að gera. Við höfum bæði verið að spila leikkerfið 3-4-3 og 4-3-3. Ég tel að við séum að mörgu leyti betur undirbúnir að mæta ólíkum leikstílum,“ sagði Davíð Þór Viðarsson við mbl.is.

Davíð Þór Viðarsson í baráttu við KR-inginn Pálma Rafn Pálmason …
Davíð Þór Viðarsson í baráttu við KR-inginn Pálma Rafn Pálmason í Lengjubikarnum í vor. mbl.is/Árni Sæberg

FH-ingar lögðu grunninn að Íslandsmeistaratitlinum á síðustu leiktíð með sterkum varnarleik en oft og tíðum voru þeir gagnrýndir fyrir að spila leiðinlegan fótbolta og að færa stuðningsmönnum sínum ekki nægilega mikla skemmtun. Spurður út þetta segir Davíð Þór;

„Já já, við lögðum kannski upp það í fyrra að spila sterkan varnarleik en við lögðum það líka upp að spila góðan sóknarleik. Sóknarleikurinn gekk kannski upp sem skyldi en á móti kemur þá snýst þetta bara um að vinna leikina. Ég get alveg skilið fólk að það vilji sjá skemmtun og ég tala nú ekki um þar sem það er búið að hækka miðaverðið á leikina.

Við hugsum alltaf um að ná í þau stig sem eru í boði og ég tek alltaf 1:0 sigur fram yfir 3:3 jafntefli. Fólk verður bara að reyna að fyrirgefa það,“ sagði Davíð Þór, sem hefur verið í lykilhlutverki hjá FH-liðinu undanfarin ár og hefur svo sannarlega stýrt þessu sigursæla liði eins og herforingi.

Býst þú við að það verði harðar sótt að ykkur í sumar heldur en í fyrra?

„Já ég á nú von á því. Það tala margir um að við höfum unnið mótið á auðveldan hátt í fyrra en við gerðum út um okkar leiki í lokin á meðan önnur lið í toppbaráttunni töpuðu stigum á mikilvægum augnablikum. Ég veit að það eru mörg lið sem ætla sér að reyna að velta okkur úr sessi.

Ég býst við spennandi Íslandsmóti. Valur og KR munu örugglega gera harða atlögu að titlinum og Stjarnan og Breiðablik sömuleiðis. Þessi lið mæta öll sterk til leiks og svo mun eflaust eitthvert lið koma á óvart. Á pappírunum eru það þessi lið sem ég nefndi ásamt okkur sem eru sterkust. Við FH-ingar reiknum með mikilli samkeppni um titilinn í ár,“ sagði Davíð Þór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert