„Við ætluðum okkur að gera meira en þetta“

Aleix Egea miðvörður Ólafsvíkinga í baráttu við Kristin Inga Halldórsson …
Aleix Egea miðvörður Ólafsvíkinga í baráttu við Kristin Inga Halldórsson sóknarmann Valsmanna í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Við ætluðum að gera eitthvað meira en þetta. Við ætluðum að spila okkar leik þar sem við erum þéttir fyrir og svo ætluðum við að nýta færin okkar,“ sagði Guðmundur Steinn Hafsteinsson framherji og fyrirliði Víkinga Ólafsvíkur eftir 0:2 tap gegn Val í fyrstu umferð Pepsi-deildarinnar á Valsvelli í kvöld.

„Þetta gekk ágætlega framan af þótt þeir hafi náð að opna okkur eitthvað. En það dugði ekki lengur en 60 mínútur,“ bætti Guðmundur við.

Hann segist í fínu standi eftir þessar 90 mínútur sem hann spilaði í dag. „Líkaminn er góður. Ég hef verið í góðu standi í vetur og hef verið að vinna í líkamanum á mér þannig að það var ekkert vandamál.“

Guðmundur var talsvert einangraður sem fremsti maður Víkinga í dag og fékk oft á tíðum úr litlu að moða.

„Þetta voru háur boltar og barátta og við vorum lítið að sækja. Ég leið svolítið fyrir það en það verður bara að koma síðar. Við erum með nógu gott lið til að geta haldið okkur uppi. Það geta mörg lið fallið og mörg lið haldið sér uppi. Við erum vonandi eitt af liðunum sem á séns á að falla ekki,“ sagði Guðmundur Steinn.

Enn er að bætast við í leikmannahóp Víkinga á síðustu stundu. Guðmundur segir að liðið verði að vinna úr því eftir því sem hægt er. 

„Við höfum auðvitað verið með tvískiptan hóp og menn hafa verið að týnast inn á síðustu stundu. En við reynum okkar besta og áttum góða æfingaferð saman. Við munum nýta vikuna í að slípa okkur betur saman fyrir næsta leik,“ sagði Guðmundur Steinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert