Stjörnumenn burstuðu Eyjamenn

Stjörnumenn burstuðu Eyjamenn með fimm mörkum gegn engu á heimavelli sínum í annarri umferð Pepsi-deildar karla. Þetta var sjöundi sigur Stjörnumanna á ÍBV í deildinni í röð.

Eyjamenn byrjuðu leikinn betur en heimamenn en það seig fljótt á ógæfuhliðina því Stjörnumenn fengu víti strax á sjöttu mínútu eftir klaufalegt brot Derby Rafael, markvarðar ÍBV. Svo virtist sem hann hafi stigið viljandi ofan á Brynjar Gauta Guðjónsson eftir klafs í teignum á milli þeirra.

Hólmbert Aron Friðjónsson skoraði örugglega úr vítinu.

Jósef K. Jósefsson bætti öðru marki við fyrir heimamenn um miðjan hálfleikinn með skoti af stuttu færi.

Undir lok hálfleiksins bjargaði Stjörnumaðurinn Daníel Laxdal svo á línu frá Alvaro Montejo.

Í stað þess að Eyjamenn næðu að minnka muninn í eitt mark skoraði Hólmbert Aron sitt annað mark í leiknum rétt fyrir hálfleik og kom sínum mönnum í 3:0.

Hólmbert varð svo fyrir því óláni að meiðast þegar skammt var liðið af síðari hálfleik.

Þrátt fyrir tvöfalda skiptingu Eyjamanna um miðjan hálfleikinn náðu þeir ekki að láta að sér kveða.

Þess í stað bættu Stjörnumenn við tveimur mörkum; fyrst Hilmar Árni Halldórsson á 70. mínútu með skemmtilegri hælspyrnu og svo Guðjón Baldvinsson á lokamínútunni eftir skyndisókn. Skömmu áður hafði Daníel Laxdal bjargað aftur á línu fyrir Stjörnumenn. 

Fyrsti sigur Stjörnumanna í Pepsi-deildinni er því í höfn og hann fyllilega verðskuldaður. Eyjamenn þurfa aftur á móti að taka sig rækilega saman í andlitinu fyrir næsta leik.

Stjarnan 5:0 ÍBV opna loka
90. mín. Guðjón Baldvinsson (Stjarnan) skorar 5:0 Vel gert hjá Guðjóni. Hann fékk sendingu frá Jóhanni Laxdal, komst framhjá varnarmanni, plataði síðan Derby í markinu og setti boltann svo í autt markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert