„Óásættanleg“ byrjun

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA.
Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Miðað við fyrstu tvo leikina þá var margt jákvætt í þessum leik. Leikurinn er heilsteyptari hjá okkur. Við erum kannski ekki að skapa rosalega mikið en varnarleikurinn er aðeins þéttari,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Skagamanna, eftir 2:1 tap gegn KR-ingum í Frostaskjóli í 3. umferð Pepsi-deildarinnar.

„Þetta er framför frá síðustu tveimur leikjum. Ég er ánægður með að við náðum að gefa þeim alvöruleik í lokin og við gerðum atlögu að jöfnunarmarkinu.“

Gunnlaugur sagði KR-inga vera með gott sóknarlið og erfitt að eiga við þá. Grunnatriðin hafi samt verið betri hjá sínum mönnum en áður, meðal annars hvað varðar talandann og færslur. „Þegar maður sér framför í því þá er maður alla vega ánægður. Auðvitað er maður ósáttur að tapa leiknum og byrjunin, núll stig eftir þrjár umferðir, er óásættanleg en við getum byggt á ýmsu úr þessum leik. Við eigum stóran leik í næstu umferð gegn Grindavík og veganestið úr þessum leik getur gefið okkur ýmislegt,“ sagði hann. 

Spurður út í félagaskiptagluggann sem lokast von bráðar sagðist hann ekki reikna með að fá nýjan leikmann inn í hópinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert