Náði að sparka duglega í andlitið á honum

Guðjón Baldvinsson þungt hugsi í leiknum í kvöld.
Guðjón Baldvinsson þungt hugsi í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það var kominn tími á að við myndum taka sigur í Kópavogi og við vorum vel gíraðir í það,“ sagði Guðjón Baldvinsson, framherji Stjörnunnar, eftir 3:1-sigur liðsins á Breiðabliki í þriðju umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld.

Þetta var fyrsti sigur Stjörnunnar á Blikum í Kópavogi í efstu deild í 23 ár og er liðið nú á toppnum með 7 stig eftir þrjá leiki.

„Ég er bara mjög sáttur og ánægður með hvernig við brugðumst við í stöðunni 2:1. Á tímabili leit það út eins og við værum að missa þetta niður en það er mjög jákvætt að halda þetta út,“ sagði Guðjón, en hann var að kljást við Michee Efete sem spilaði sinn fyrsta leik í miðverðinum hjá Blikum í kvöld.

„Hann er sterkur og það var mjög vel tekið á. Ég held ég hafi náð að sparka duglega í andlitið á honum þegar hann bjargaði hjólhestaspyrnu, sem var neikvætt fyrir mig og hann,“ sagði Guðjón, en hann átti skot að marki sem fór í Efete og vítaspyrna var dæmd.

„Boltinn stefndi að marki og fór klárlega í höndina á honum. Þetta var augljóst fyrir mér,“ sagði Guðjón. Hólmbert Aron Friðjónsson klúðraði vítaspyrnunni en Guðjón tók frákastið og skoraði.

„Ég hafði tilfinningu fyrir því að Hólmbert færi að klúðra, hann hefur verið svo „cocky“ á það að klúðra ekki vítum svo ég er alltaf tilbúinn þarna á kantinum. Ég náði að vera á réttum stað og þakka honum fyrir þessa stoðsendingu,“ sagði Guðjón Baldvinsson, leikmaður Stjörnunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert