Stjórnuðum ferðinni allan tímann

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR.
Willum Þór Þórsson, þjálfari KR. Ljósmynd/Andy Müller

„Það sem maður segir núna litast kannski af síðustu fimm mínútum, þar sem þetta var erfitt í lokin. Fram að því að þeir minnka muninn úr víti fannst mér við stjórna ferðinni allan tímann,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR-inga, eftir 2:1 sigur liðsins á Skagamönnum í Frostaskjóli í 3. umferð Pepsi-deildarinnar.

„Ég fann það líka að liðinu leið vel inni á vellinum. Þeir voru ekki að skapa sér neitt og við vorum fljótir að vinna boltann og færa hann til og skapa okkur færi.“

Hann sagði að í stað þess að sigla þessu heim með þriðja markinu hafi Skagamenn komist inn í leikinn í lokin. „Þeir sjá glætu og fara að dæla boltum inn á teig og þá verðurðu að standa vaktina. Við sýndum styrk til að klára stigin.“

Willum Þór er ekki ánægður með vítaspyrnudóminn í lokinn. „Mér fannst markmaðurinn okkar kýla boltann og svo skella þeir saman. En það er um 45 gráðu sjónarhorn 60 metra í burtu.“

Hann sagði góðan brag vera á KR-liðinu og hugarfarið í dag hafa verið sterkt. „Það var augljóst að menn ætluðu sér að landa sigri. Við fengum magalendingu hér í fyrsta heimaleik og það er mikilvægt að við séum sterkir á heimavelli. Við ætluðum að sýna fram á það í dag og ég held að það hafi tekist.“

Skoða í kringum sig

Spurður út í félagaskiptagluggann, sem lokast von bráðar, sagði Willum Þór að ekkert sé fast í hendi. „Við höfum verið að skoða í kringum okkur en það var alla vega ekkert fyrir þennan leik sem var í hendi. Upp á breiddina þurfum við kannski einn leikmann í viðbót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert