Þetta er þungt og erfitt

Arnþór Ari Atlason í leik með Breiðabliki.
Arnþór Ari Atlason í leik með Breiðabliki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnþór Ari Atlason, leikmaður Breiðabliks var að sjálfsögðu svekktur eftir 1:0 tap gegn Fylki í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins í kvöld. Arnþór segir að slakur fyrri hálfleikur hafi kostað Breiðabliks liðið í dag. 

„Fyrri hálfleikur var mjög dapur og við vorum undir í baráttunni. Þeir vildu þetta meira í fyrri hálfleik og fengu vítaspyrnu sem var vítaspyrna og komust í 1:0. Við reyndum okkar besta í seinni hálfleik en við náðum ekki að skapa eins mörg dauðafæri og við vildum. Þetta var skömminni skárra í seinni hálfleiks en það dugði ekki til, við verðum bara að halda áfram."

Blikar vildu fá víti í fyrri hálfleik þegar skot Arnþórs var varið á marklínunni af Ásgeiri Eyþórssyni. 

„Ég held þetta hafi farið í höndina á honum, ég átti skotið og ég sá ekki betur en þetta hafi farið í höndina á honum. Svona er fótboltinn og það þýðir ekki að fela sig á bak við þetta, við spiluðum ekki nógu vel í dag til að eiga skilið að fara áfram."

Arnþór fékk tvö fín tækifæri í seinni hálfleik en í bæði skiptin skaut hann langt yfir markið. 

„Ég var greinilega í krummaskó, ég fékk tvo sénsa rétt fyrir utan teiginn, í bæði skiptin kom boltinn á lofti í fullkomni hæð en ég þrusaði því yfir. Ég þarf bara að rífa mig upp, sem og allt liðið, við ætlum að gera það saman og ná í fyrsta sigurinn í sumar."

Hvað hefur Arnþór um gengi liðsins hingað til að segja? 

„Þetta er þungt og búið að vera erfitt hingað til en það jákvæða við það er að mótið er rétt að byrja og það er nóg eftir af þessu sumri, það er nægur tími til að snúa dæminu við og ég hef fulla trú á að liðið mitt geri það," sagði Arnþór Ari að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert