Ekkert annað í stöðunni en að reka Arnar

Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson. Ljósmynd/Eva Björk

„Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að vera Bliki,“ skrifar Ólafur Hrafn Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, til stuðningsmanna félagsins og tjáir sig um þá ákvörðun að reka Arnar Grétarsson úr starfi sem þjálfari liðsins eftir tvær umferðir í Pepsi-deild karla nú í vor.

Ólafur skrifar að þetta hafi verið mjög erfið ákvörðun en óhjákvæmileg þar sem það hafi verið mat stjórnarinnar að ekkert annað hafi verið í stöðunni. Þá veltir hann því upp að kannski hafi verið mistök að hafa ekki tilbúinn eftirmann Arnars, en af virðingu hafi stjórnin ekki viljað fara á bak við hann.

Bréf Ólafs til stuðningsmanna Blika má sjá hér að neðan:

Það hefur ekki alltaf verið auðvelt að vera Bliki síðustu vikur, ljósið í myrkrinu hefur verið gengi stelpnanna okkar og Steina í meistaraflokki kvenna. Gengi karlaliðsins hefur verið undir væntingum og í síðustu viku ákvað stjórnin að skipta um manninn í brúnni. Sú ákvörðun var gríðarlega erfið og tók á alla sem komu að henni.

En í ljósi aðstæðna var það mat stjórnarinnar að því miður hafi það verið óhjákvæmilegt og ekkert annað í stöðunni. Kannski voru það mistök hjá okkur að vera ekki tilbúin með eftirmann en af virðingu við Adda og félagið fannst okkur ekki koma til greina að fara á bak við hann og byrja einhverja leit meðan hann var enn í starfi hjá félaginu.

Leit að nýjum þjálfara stendur yfir og leggjum við okkur fram um að gera það eins faglega og vel eins og kostur er og munum því taka okkur þann tíma sem þarf til að klára það mál. Ég á samt von á því að fljótlega verði hægt að tilkynna hver eða hverjir stýri liðinu næstu misseri.

Á sunnudaginn er næsti leikur og tækifæri til að rífa sig af stað. Við förum í Víkina og mætum Víking Reykjavík. Við vitum öll að það býr mikið í liðinu, við vitum líka hvað stuðningur áhorfenda er mikilvægur og strákunum okkar veitir svo sannarlega ekki af honum! Ég vil því biðla til ykkar að mæta á völlinn og hvetja liðið okkar áfram því stuðningur okkar félagsmanna skiptir sjaldan meira máli en á svona stundum. Eins og við vitum öll skiptir hugarfar í íþróttum miklu máli, innan vallar sem utan. Myndbandið sem Hilmar Jökull birti hér í gær er frábært dæmi um það! Snúum nú bökum saman því eins og orðatiltækið segir, sameinaðir stöndum ver sundraðir föllum vér!

Áfram Breiðablik!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert