Maður fær alltaf góðar móttökur í Eyjum

Ágúst Þór Gylfason
Ágúst Þór Gylfason Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Það er flott að fara til Eyja. Þar er flott aðstæða og maður fær alltaf góðar móttökur frá Eyjamönnum. Ferðalagið er svo orðið betra en mörg ár áður. Þetta verður skemmtilegur leikur sem við verðum að vinna til að komast áfram og það skiptir ekki öllu máli hverjum við mætum," sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis eftir að það varð ljóst að liðið mætir ÍBV á útivelli í 16-liða úrslitum Borgunarbikars karla í knattspyrnu.

Fjölnir mætti Eyjamönnum í 1.umferð Pepsi-deildarinnar og þá skildu liðin jöfn, 0:0.

„Við erum búnir að spila við þá í Eyjum. Þeir voru manni færri stóran hluta leiks og það var mikil barátta. Kannski verðum við tíu á móti þeim núna í staðinn."

„Eyjamenn verða betri og betri eftir því sem líður á sumarið og það má segja það sama um okkur, við erum með nýtt lið og ég á von á skemmtilegri rimmu."

Fjölnir rétt missti af Evrópusæti á síðustu leiktíð og segir Ágúst að auðveldasta leiðin að Evrópusæti sé að verða bikarmeistari. 

„Þú þarft bara að vinna nokkra leiki. Valsarar hafa sýnt það, þeir hafa verið tvö ár í röð í Evrópukeppni út af bikarnum en ekki deildinni. Þetta er klárlega auðveldasta leiðin," sagði Ágúst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert