Mér fannst skorta traust

Milos Milojevic
Milos Milojevic mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti þegar knattspyrnudeild Víkings í Reykjavík sendi frá sér yfirlýsingu undir kvöld þar sem fram kom að Mi­los Miloj­evic hafi látið af störfum sem þjálfari Víkings vegna skoðana­ágrein­ing­ings sem var sagður óyf­ir­stíg­an­leg­ur.

„Ég er Víkingum mjög þakklátur fyrir það tækifæri sem ég fékk hjá félaginu og þakka öllu því fólki sem ég hef unnið með hjá því . Við höfum unnið eftir ákveðinni stefnu og skipt hlutverkum á milli okkar. Ég er kröfuharður við sjálfan mig við alla aðra sem ég starfa með eins og í þjálfarateyminu og stjórn og ég vil að menn vinni á sínu verksviði en ekki einhverra annarra,“ sagði Milos í samtali við mbl.is í kvöld.

Ég er ekki Hitler

„Það eiga allir, þjálfari, aðstoðarþjálfari markvarðaþjálfari og stjórnarmenn að vinna eftir sínu og taka ábyrgð á því. Á endanum tek ég ábyrgð á gengi liðsins. Það eru ákveðnar reglur hjá mér hvernig við eigum að haga okkur á meðan leik stendur. Ég er ekki Hitler eða þannig en ég er alinn þannig upp að þegar ég er að vinna leik þá sýni ég andstæðingnum virðingu og þegar ég er að tapa leik þá er ég ekki niðurbrotinn.

Ég vil undirstrika að það var ekki þannig að stjórnin vildi ekki hafa mig áfram. Mér fannst hins vegar skorta á traust frá öllum og ég er þannig maður að ég vil að allir róa í sömu átt. Ég vissi að það myndi koma á einhverjum tímapunkti að ég myndi hætta. Ég vildi kveðja með titli en ég vissi að ég myndi ekki vinna titil eftir þrjá mánuði eða sex mánuði.

Ég fann að traustið á mér var ekki 100% og fyrst menn voru farnir að efast um mína getu og ábyrgð þá fannst mér best að stíga til hliðar. Ég er ekki ánægður með það en ég fer eftir sannfæringu minni. Það er ekki af því að ég sé með einhverja stæla. Ég geri mistök eins og allir aðrir og stend og fell með þeim en ég geri ekki allt einn. Við erum teymi,“ sagði Milos.

Milos segist hafa verið ánægður með leikmannahópinn sem unun hafi verið að vinna með.

„Ég tel að frammistaða liðsins hafi verið góð en ekki úrslitin. Ég veit að liðið er í góðum höndum hjá Kazic og Cardaklija og ég treysti þeim 100%. Ég fann að ég hafði ekki traust frá öllum sem að félaginu koma. Mér finnst erfitt að fara frá liðinu. Þetta eru allt vinir mínir. En kannski er gott fyrir Víking og mig að breyta til. Ég vona innilega að Víkingi gangi allt í haginn. Ég er búinn að vera hjá Víkingi í níu ár og þekki allt, bæði stuðningsmenn, leikmenn og krakka sem eru í yngri flokkunum. Það eru fáir sem ég hef ekki þjálfað hjá Víkingi beint og óbeint,“ sagði Milos.

Með tilboð frá toppliði í Serbíu og lið í Dubai hefur haft samband

Hvað tekur við hjá þér núna?

„Eins og staðan er núna er ég með bókað flug til Serbíu þann 12. júní. Þá er ég laus úr kennslunni. Planið er að fara heim í sumarfrí og ég veit einfaldlega ekki hvað ég á að gera í sumarfríinu því ég hef ekki tekið mér sumarfrí í í 10-15 ár,“ sagði Milos.

Ertu með þjálfaratilboð frá Dubai, eins og við höfum heyrt?

„Ég er með umboðsmenn sem eru að vinna fyrir mig og það er eitthvað í gangi en þó ekkert í hendi. Ég er með tilboð frá liði í efstu deild í Serbíu sem er búið að bíða lengi eftir mér. Ég er ekki tilbúinn að vinna í Serbíu strax eins og staðan er núna. Það væri spennandi að fara til Dubai en ég er að hugsa um hagsmuni fjölskyldunnar og ég ætla að vera rólegur. Ég er opinn fyrir öllu. Minn draumur er að vera atvinnuþjálfari, hvort sem það verður á Íslandi, Serbíu, Svíþjóð eða Dubai. Ég vona bara að næsta skref verði rétt sem ég tek.“

Breiðablik er í þjálfaraleit. Ef Blikarnir myndu hafa sambandi við þig, værir þú tilbúinn að taka við þeim?

„Þeir þurfa fyrst að hringja mig,“ sagði Milos og hló. „Ég get ekki sagt annað en að Breiðablik er spennandi félag og ég ber mikla virðingu fyrir því sem það hefur gert. En ef ég væri með tilboð þá væri ég ekki búinn að bóka flug til Serbíu. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert