„Ég hitti stjórnina í kvöld eða fyrramálið“

Sigurður Víðisson, þjálfari Blika.
Sigurður Víðisson, þjálfari Blika. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var stórkostlegt. Við ætluðum að spila okkar leik eins og við höfum alltaf gert. Það var góður andi í þessu hjá okkur og við náðum að berjast fyrir hver annan og skoruðum flott mörk,“ sagði Sigurður Víðisson, þjálfari Breiðabliks, eftir 2:3 sigur á Víking R. í kvöld.

Sjá frétt mbl.is: Langþráður Blikasigur í Fossvoginum

Með sigrinum náðu Blikar í sín fyrstu stig í sumar. Liðið hefur gengið í gegnum þjálfarabreytingar með brotthvarfi Arnars Grétarssonar en tókst nú að landa langþráðum sigri.

„Þetta er auðvitað sama liðið og hefur spilað hina leikina en spilamennskan er að batna hjá okkur, menn eru að koma með meira sjálfstraust inn í leikina og kassann út í loftið.“

„Við börðumst allir saman, það er kannski það sem vantaði í byrjun tímabils.“

Aðspurður hvort hann telji að brotthvarf Milos Milojevic sem þjálfara Víkings skömmu fyrir helgi hafi haft áhrif segir Sigurður:

„Það voru sömu leikmenn að spila fyrir Víkinga og hafa spilað áður, og þeir eru jafngóðir og þeir voru á föstudaginn. Auðvitað vigtar það eitthvað en það ræður ekki úrslitum.“

Aðspurður út í framhaldið hjá sjálfum sér hjá Breiðabliki segir Sigurður:

„Ég hitti stjórnina á eftir eða í fyrramálið og þá skoðum við þetta. Planið var að klára þennan leik og svo ræða framhaldið. Ég hef ekki hugmynd um hvort ég verði áfram með liðið,“ sagði Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert