Þetta fer illa í skapið á manni

Guðmann Þórisson í miðjum hópi leikmanna beggja liða í kvöld.
Guðmann Þórisson í miðjum hópi leikmanna beggja liða í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmann Þórisson, fyrirliði KA, og Hallgrímur Mar Steingrímsson, kantmaður norðanmanna, voru á einu máli um að það væri hræðilegt að tapa fótboltaleik eins og þeir upplifðu í kvöld gegn Stjörnunni, 2:1, þar sem Garðbæingar skoruðu sigurmarkið í blálok uppbótartímans.

„Við vorum ekki góðir í þessum leik en vorum búnir að verjast með öllu sem við gátum í 90 mínútur og þá er hrikalega svekkjandi að fá svona lagað í andlitið. Þetta fer illa í skapið á manni,“ sagði Guðmann við mbl.is.

„Jafnteflið hefði alveg verið sanngjarnt eins og þetta þróaðist. Þeir fengu engin opin færi nema þegar Hólmbert skaut í slána í fyrri hálfleik og við fengum nokkur svona „næstum því“ færi. Þetta hefði getað dottið á hvorn veginn sem var en það datt þeirra megin núna,“ sagði Guðmann.

En það er hrikalega gaman að taka þátt í þessu ævintýri með KA. Byrjunin hefur verið góð, og það hefði verið sætt að ná stigi hérna í kvöld. Við erum með fáránlega erfiða byrjun, mætum öllum þessum sterku liðum í fyrstu umferðunum. En ég segi og stend við það að á góðum degi eigum við séns á að vinna öll lið og nú er bara að halda áfram. Fyrsta markmið í mínum augum er að fá nógu mörg stig til að halda okkur uppi, byrja á því. En ég tel okkur vera með það gott lið að við getum sett hærri markmið. Takist okkur að komast í efri hluta deildarinnar væri það frábær árangur hjá liði sem var að koma upp,“ sagði Guðmann.

Ólýsanlega mikil vonbrigði

Hallgrímur sagði við mbl.is að tapið væri virklega svekkjandi. „Sérstaklega þar sem við vorum búnir að leggja okkur 150 prósent fram í 90 mínútur. Að fá þá á sig svona mark er ótrúlega svekkjandi.

Við vissum að við yrðum að vera þéttir til baka á móti sterku liði eins og Stjarnan er og mér fannst þeir ekki skapa mikið af færum þó að þeir hefðu legið talsvert á okkur. Við fengum skyndisóknir og sköpuðum hálffæri en það eru ólýsanlega mikil vonbrigði að fá ekkert út úr þessum leik.

Mér finnst Stjarnan vera eitt sterkasta liðið í deildinni, ef ekki það sterkasta, og að koma hérna og vera með þá í jöfnu í 90 plús mínútur gerir mig einfaldlega mjög stoltan af okkar frammistöðu. Við upplifum mikla stemningu á Akureyri eftir góða byrjun í mótinu. Schiöthararnir hafa verið geggjaðir og koma í alla útileiki með okkur. Það er góð stemning á Akureyri og hún dettur ekkert niður þó að við höfum tapað þessum leik,“ sagði Hallgrímur Mar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert