Fyrsta sinn sem ég fer á FH-völlinn

Fjölnismenn unnu flottan sigur gegn FH í kvöld.
Fjölnismenn unnu flottan sigur gegn FH í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hinn 18 ára gamli Torfi Tímoteus Gunnarsson á eflaust eftir að muna vel og lengi eftir fyrsta leik sínum í efstu deild en það gerði hann gegn Íslandsmeisturum FH í kvöld þegar Fjölnismenn gerðu sér lítið fyrir og lögðu meistarana, 2:1.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég fer á FH-völlinn og að vinna sigur hér í mínum fyrsta leik í Pepsi-deildinni er hreint geggjað. Ég neita því ekki að hjartað tók nokkur aukaslög þegar ég vissi að ég ætti að byrja inni á. Það eru kóngar í þessu FH liði sem eru frábærir í fótbolta en ég vil meina að við höfum unnið vel fyrir þessum sigri.

Mér fannst við eiga skilið að vinna leikinn. Við vorum skipulagðir og ógnuðum þeim með fínum skyndisóknum allan tímann. Við vorum meðvitaðir um að Fjölnir hefur aldrei unnið FH í deildinni og vildum breyta því,“ sagði Torfi Tímoteus við mbl.is eftir leikinn en hann lék allan tímann í miðvarðarstöðunni og stóð sig eins og hetja.

Torfi er af knattspyrnuættum en frændur hans, Ísfirðingarnir Jóhann Torfason og Ómar Torfason, gerðu garðinn frægan á fótboltavellinum á árum áður og karl faðir hans, Gunnar Torfason, lék með BÍ á Ísafirði.

„Ég fékk reyndar engin ráð frá þeim fyrir þennan leik en þeir hafa í gegnum tíðina gaukað að mér góðum ráðum eins og hvernig á að dekka inni í teignum,“ sagði Torfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert