Get ímyndað mér að ég hafi sært Víkinga

Milos Milojevic, þjálfari Víkings.
Milos Milojevic, þjálfari Víkings. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Milos Milojevic lét óvænt af störfum sem þjálfari úrvalsdeildarliðs Víkings R. á föstudaginn var. Milos var ekki lengi að finna sér annað starf, því hann skrifaði undir samning við Breiðablik í dag en Breiðablik spilar í sömu deild. Mbl.is heyrði í Milos í dag.

„Þetta gerðist mjög hratt. Ég heyri fyrst í þeim seinni part laugardags, þá var ég án félags og eina sem ég vissi var að ég ætlaði til Serbíu 12. júní. Við ákváðum þá að ræða málin í dag og bíða eftir að leikur Víkings og Breiðabliks væri búinn. Það hefði ekki verið vel séð ef ég hefði stýrt Breiðabliki á móti Víkingi, þar sem ég hef miklar taugar til Víkings."

„Víkingur er frábært félag sem gaf mér tækifæri og ég er þeim mjög þakklátur. Ég ákvað aðeins að sofa á þessu og bíða aðeins með að ákveða mig. Svo var ég ekki viss hvort ég myndi fá annað símtal frá Breiðabliki, þar sem félagið hefur verið í viðræðum við aðra þjálfara. Þeir hringdu svo í dag og viðræðurnar tóku ekki langan tíma eftir það."

Gat ekki horft á Víking tapa

Milos var viðstaddur er Víkingur og Breiðablik mættust í Pepsi-deildinni í gær, en hann kláraði ekki leikinn. 

„Ég fór í fyrri hálfleik því ég vildi ekki sjá Víking tapa, þetta var þungt augnablik fyrir mig því ég er ekki vanur því að vera hinum megin í stúkunni, svo ég fór í stöðunni 1:0 fyrir Breiðablik og fór að horfa á Stjarnan - KA. Ég mun mæta Víkingi á Kópavogsvelli seinna í sumar, en svona er þjálfaralífið. Þú veist aldrei hvað gerist, stundum eru menn að leita að vinnu lengi en ég var heppinn að það var starf í efstu deild laust."

Milos er mjög spenntur fyrir því að vinna hjá Breiðabliki og þeirri pressu sem því fylgir. 

„Breiðablik er með mjög gott lið og ég er að taka við góðu búi af Arnari Grétarssyni og þjálfarateyminu sem var með liðið þangað til ég tók við. Það eru litlir hlutir sem þarf að laga því það eru margir sigurvegarar í þessu liði og sumir þeirra hafa orðið Íslandsmeistarar. Það verður unun fyrir mig að vinna með þeim."

„Ég er aldrei að pæla í því hvort það sé mikil pressa á mér eða ekki. Ég leita mér ekki að þægilegu umhverfi til að vinna í, ég vil vinna í umhverfi þar sem eru háleit markmið og ef markmiðin mín og markmið stjórnarinnar eru þau sömu, þá er ég ánægður. Ef ég réði ekki við pressu, þá ætti ég að fá mér aðra vinnu."

Mjög sérstakt að reka Arnar eftir tvo leiki

Milos tekur við af Arnar Grétarssyni, sem var rekinn þegar tvær umferðir voru búnar af leiktíðinni. 

„Það var mjög sérstakt en ég virði Arnar mjög mikið. Hann er góður þjálfari og hann hefur sýnt það á undanförnum árum. Hann hefur verið í toppstarfi hjá stórum félögum eins og Club Brugge og AEK Aþenu. Þetta var ákvörðun stjórnar Breiðabliks og þeir vita hvað átti sér stað þarna, en ég var ekki að velta því fyrir mér. Ég hef ekkert reynt að komast að því hvað var að og hvað var ekki að."

Hann segist skilja við vini sína í Víkingi í góðu. 

„Ég er búinn að eignast marga vini á þeim níu árum sem ég hef verið í Víkinni, hvort sem það eru leikmenn, stjórnarmenn eða aðrir starfsmenn. Ég skulda félaginu mikið og ég get ímyndað mér að ég hef sært þá með þeirri ákvörðun að ganga til liðs við annars félags í sömu deild á svona skömmum tíma. Að sama skapi, ef þeir hugsa vel til mín, vilja þeir frekar að ég taki við liði í efstu deild, en einhverju öðru. Að mínu viti skiljum við sem vinir, þeir eru í það minnsta ekki óvinir mínir," sagði Milos að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert