Þrenna Andra Rúnars tryggði Grindavík þrjú stig

Skagamenn eru enn stigalausir á botni Pepsideildar karla í knattspyrnu eftir 3:2-tap á heimavelli gegn Grindavík. Andri Rúnar Bjarnason skoraði öll mörk gestanna og kom sér í færi til að skora fleiri.

Grindavík er þar með komin með sjö stig eftir fjóra leiki og er í efri hluta deildarinnar.

Staðan var 1:1 í hálfleik eftir að Andri Rúnar hafði komið gestunum yfir snemma leiks, en Steinar Þorsteinsson jafnaði metin á 28. mínútu. Garðar Gunnlaugsson krækti í vítaspyrnu rétt fyrir hálfleik, eftir að Kristijan Jajalo kýldi óvart í hann í stað þess að hitta boltann. Jajalo varði hins vegar slaka vítaspyrnu Garðars.

Strax í byrjun seinni hálfleiks kom Andri Rúnar gestunum yfir á nýjan leik með skoti af stuttu færi eftir fyrirgjöf Arons Freys Róbertssonar. Hann innsiglaði svo þrennuna á 88. mínútu eftir stungusendingu Sam Hewson. Garðar náði að minnka muninn í uppbótartíma en þar við sat.

ÍA 2:3 Grindavík opna loka
90. mín. Garðar B. Gunnlaugsson (ÍA) skorar 2:3 - Garðar er orðinn vanur að skora á 90. mínútu. Nýtti sér það að Jajalo missti boltann klaufalega frá sér eftir sendingu frá vinstri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert