Verðugt og skemmtilegt verkefni

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eva Björk

Bikarmeistarar Breiðabliks hefja titilvörnina í leik á móti Þór/KA í 16-liða úrslitum bikarkeppni kvenna í knattspyrnu, Borgunarbikarnum, en dregið var til þeirra í hádeginu.

„Þetta verður verðugt og skemmtilegt verkefni,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, við mbl.is þegar leitað var eftir viðbrögðum hans eftir dráttinn.

„Það má reikna með hörkuleik tveggja góðra liða. Það hlýtur að hjálpa okkur að spila á heimavelli og maður þarf að vinna góð lið til þess að komast í úrslitin sem er markmiðið hjá okkur. Við viljum upplifa stemninguna frá því í fyrra þegar við unnum bikarmeistaratitilinn. Það var frábær stund og ég væri til í að endurtaka það.

Þór/KA er með mjög gott lið og frábær byrjun liðsins hefur ekki komið mér neitt á óvart. Það kom mér auðvitað á óvart að það skyldi vinna okkur,“ sagði Þorsteinn og hló. „Það eru góðir erlendir leikmenn í Akureyrarliðinu og heimastelpurnar í liðinu eru ári eldri og eru að þroskast og styrkjast,“ sagði Þorsteinn en Þór/KA vann Blikana í 2. umferð Pepsi-deildarinnar og er með fullt hús stiga eftir fimm umferðir en Breiðablik er í þriðja sætinu með 12 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert