Fæ ekki að taka fleiri víti

Halldór Kristinn Halldórsson skallar að marki Leiknis F en Sólmundur …
Halldór Kristinn Halldórsson skallar að marki Leiknis F en Sólmundur Björgólfsson (23) bjargaði á marklínu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Kristinn Snjólfsson, miðjumaður Leiknis á Fáskrúðsfirði, sagði eftir ósigur gegn Leikni úr Reykjavík, 2:0, í 1. deild karla í knattspyrnu í Efra-Breiðholti í dag að þrátt fyrir tapið væri klárt að stutt væri í fyrsta sigur liðsins.

Leiknir F. er með eitt stig eftir fyrstu fjóra leikina en liðið gerði jafntefli við Gróttu í fyrsta leik og tapaði síðan fyrir Keflavík, HK og núna Leikni R.

„Þetta var frekar erfitt í dag en við áttum þó marga góða kafla í leiknum. Við vorum óheppnir að skora ekki og fengum á okkur þetta klaufalega mark í fyrri hálfleik. Við misstum dampinn aðeins við það. Svo var dæmt á okkur víti og við fengum síðan á okkur annað mark, og þar með var staðan orðin 2:0. En við héldum áfram og sköpuðum okkur mörg færi og vorum virkilega óheppnir að nýta þau ekki,“ sagði Kristinn við mbl.is.

Kristinn fór þar sjálfur fremstur í flokki en hann átti hörkuskot í þverslá í seinni hálfleiknum og í lok leiksins varði Eyjólfur Tómasson í marki Leiknis R. frá honum vítaspyrnu, eftir að Kristni sjálfum var skellt í vítateignum.

„Já, maður á svona daga. Nei, þegar maður fær vítaspyrnu á einhver annar að taka hana. Það er alveg rétt, og nú fæ ég örugglega ekki að taka fleiri víti og verð bara að skora öðruvísi!“ sagði Kristinn sem kom til Leiknis F. í vetur frá Sindra á Hornafirði þar sem hann lék í 2. deildinni í fyrra.

Hann kvaðst vera viss um að betri tíð væri fram undan hjá Fáskrúðsfirðingum.

„Mér finnst vera stígandi í liðinu. Við fengum nýjan Spánverja (José Luis Vidal) fyrir stuttu og hann er að komast inn í liðið, og svo höfum við misst menn í meiðsli. En byrjunarliðið er að slípast, við þurfum að vera með stabílt byrjunarlið og þá kemur smám saman betri spilamennska frá okkur. Fyrsti sigurinn kemur í næsta leik, þá erum við heima og ég man ekki á móti hverjum, er eiginlega alveg sama. Þá tökum við þrjú stig, það er það eina sem skiptir máli,“ sagði Kristinn Snjólfsson en sá leikur er gegn Fram í Fjarðabyggðarhöllinni laugardaginn 3. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert