Enn skorar Katrín í Stjörnusigri

Megan Dunnigan úr FH og Agla María Albertsdóttir úr Stjörnunni …
Megan Dunnigan úr FH og Agla María Albertsdóttir úr Stjörnunni í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Ófeigur

Stjarnan komst upp í annað sæti Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðið vann sinn þriðja leik í röð, í þetta sinn 3:1 gegn FH á útivelli í sjöttu umferð deildarinnar þar sem Katrín Ásbjörnsdóttir hélt áfram að skora.

Leikurinn var bráðfjörugur og fengu bæði lið sín færi í upphafi leiks. Ísinn var brotinn eftir rétt tæplega hálftíma leik þegar Katrín kom Stjörnunni yfir með skalla af stuttu færi. Hún var þar að skora í sjötta leiknum í röð og eftir það komu mörkin á færibandi.

Aðeins tveimur mínútum síðar jafnaði Caroline Murray metin fyrir FH á laglegan hátt með skoti úr teignum eftir sendingu frá Helenu Ósk Hálfdánardóttur. Aðeins tveimur mínútum eftir jöfnunarmarkið skoraði Katrín hins vegar aftur, í þetta sinn úr vítaspyrnu eftir að brotið var á Donny-Key Henry í teignum. Hennar áttunda mark í sex leikjum og þrjú mörk á fjórum mínútum í leiknum, staðan 2:1 fyrir Stjörnuna.

Donna-Key var svo sjálf á ferðinni skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks eftir að hafa fengið glæsilega stungusendingu frá Öglu Maríu Albertsdóttur og staðan 3:1 fyrir Stjörnuna í hálfleik.

Fjörið var heldur minna eftir hlé en bæði lið fengu þó sín færi. Það dró svo til tíðinda tæpum tíu mínútum fyrir leikslok þegar Ana Victoria Cate í liði Stjörnunnar fékk að líta beint rautt spjald eftir að hafa lent saman við Megan Dunnigan í liði FH. Ekki urðu mörkin þó fleiri, lokatölur 3:1 fyrir Stjörnuna.

Stjarnan er nú í öðru sæti deildarinnar með 16 stig eftir sex umferðir, tveimur stigum á eftir toppliði Þórs/KA sem er á toppnum en þessi lið mætast einmitt í toppslag í næstu umferð. FH er í 6. sætinu með 9 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leiki dagsins í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl koma hingað á vefinn síðar í kvöld.

FH 1:3 Stjarnan opna loka
90. mín. Katrín Ásbjörnsdóttir (Stjarnan) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert