Hefði viljað skora tvö í viðbót

Arna Sif Ásgrímsdóttir.
Arna Sif Ásgrímsdóttir. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Arna Sif Ásgrímsdóttir, miðvörður Vals, var að vonum ánægð með 5:1 sigurinn á Grindavík í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag. Hún var sérstaklega ánægð með seinni hálfleikinn. 

„Ég er mjög ánægð með þennan leik. Við vorum aðeins að finna okkur í fyrri hálfleik en svo kom þetta. Seinni hálfleikurinn var frábær og með fullt af fínu spili. Grindavík er með hörkulið og þær hættu aldrei, þetta var erfitt en á sama tíma verðskuldað.“

Arna skoraði fyrsta mark leiksins en hún hefði viljað skora fleiri. Hún og Valsliðið í heild voru stórhættuleg í föstum leikatriðum. 

„Við hefðum getað skorað fleiri mörk en við kvörtum ekki yfir því að skora fimm. Ég hefði sjálf viljað skora tvö í viðbót.“

„Við erum með fullt af frábærum skallamönnum í þessu liði og föst leikatriði eiga að vera dauðafæri hjá okkur,“ sagði hún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert