Læknarnir eru í vandræðum

Frá leiknum á Valsvelli í dag.
Frá leiknum á Valsvelli í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Mér fannst við vera ágætar til að byrja með en Valsliðið var óvenjusprækt. Valskonur voru mjög grimmar og setja mark, við héldum okkar taktík áfram eftir það en svo gefum við þeim mark tvö, sem var algjör jólagjöf. Eftir það var þetta erfitt,“ sagði Róbert Jóhann Haraldsson, þjálfari Grindavíkur, eftir 5:1 tap gegn Val á útivelli í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. 

„Við stigum upp og náum að minnka muninn rétt fyrir hlé, en svo gleymum við okkur og Valur fær aðra gjöf. Við héldum áfram og reyndum að vinna með það sem við ætluðum að gera, en Valur var of gott lið í dag.“

Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði annað mark leiksins, eftir skelfileg mistök Emmu Higgins í marki Grindavíkur. 

„Við viljum reyna að spila út frá markmanni og ég vissi að þetta myndi gerast í sumar. Það er mjög auðvelt að negla boltanum fram, en við viljum spila stutt, en við verðum að passa að þetta gerist ekki aftur.“

„Föstu leikatriðin eru áhyggjuefni. Liðin hafa ekki verið að spila í gegnum okkur og ekki fengið mörg færi í opnum leik, en við erum búin að vera í basli með horn- og aukaspyrnur. Við höfum verið að æfa það og þetta átti ekki að koma okkur á óvart. Við vorum ekki alveg nógu mikið á teignum inn í dag.“

Thaisa Moreno, einn besti leikmaður Grindavíkur, hefur ekki verið með í undanförnum leikjum, en hún var ónotaður varamaður í dag. 

„Læknarnir eru í vandræðum með að finna út hvað þetta er. Það er mikill missir að hafa hana ekki og það vantar einhvern til að koma með auka sjálfstraust inn í liðið. Ég vona að hún komi sem fyrst til baka. Hún var að reyna í upphitun en hún fann strax að það gekk ekki,“ sagði Róbert að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert