Leiknir lagði Leikni – tvö víti varin

Kolbeinn Kárason með boltann og Sólmundur Björgólfsson sækir að honum …
Kolbeinn Kárason með boltann og Sólmundur Björgólfsson sækir að honum í leiknum í dag. mbl.is/Ófeigur

Leiknir úr Reykjavík vann í dag sinn fyrsta sigur í 1. deild karla í knattspyrnu, Inkasso-deildinni, með því að sigra Leikni frá Fáskrúðsfirði, 2:0, á Leiknisvellinum í Efra-Breiðholti.

Leiknir R. er þá kominn með 5 stig eftir fjóra leiki en Leiknir F. situr eftir með eitt stig í næstneðsta sætinu.

Fáskrúðsfirðingar voru heldur frískari til að byrja með en Breiðhyltingar náðu smám saman tökum á leiknum. Kolbeinn Kárason átti skalla í þverslá af örstuttu færi áður en hann kom Leikni R. yfir á 30. mínútu. Þá fylgdi hann á eftir inn við marklínu eftir atgang við mark gestanna. Staðan var 1:0 í hálfleik.

Breiðhyltingar byrjuðu seinni hálfleikinn mjög vel og fengu vítaspyrnu strax á 53. mínútu þegar brotið var á Brynjari Hlöðverssyni fyrirliða. Kolbeinn tók hana en Robert Winogrodzki í marki Fáskrúðsfirðinga varði.

En tveimur mínútum síðar fékk Elvar Páll Sigurðsson boltann frá Ísak Atla Kristjánssyni á vítateigslínu og skoraði með fallegu skoti í vinstra hornið, 2:0.

Kristinn Snjólfsson var nærri því að minnka muninn fyrir Fáskrúðsfirðinga þegar hann átti hörkuskot í þverslá. Halldór Kristinn Halldórsson var óheppinn að skora ekki fyrir Breiðhyltinga þegar tvisvar var bjargað frá honum á marklínu í sömu sókninni.

Önnur vítaspyrna var dæmd í lok uppbótartíma þegar Kristni Snjólfssyni var skellt í vítateig heimanmanna. Hann tók spyrnuna sjálfur en Eyjólfur Tómasson gerði sér lítið fyrir og varði.

Verðskuldaður sigur Breiðhyltinga sem var aldrei í hættu eftir að þeir skoruðu annað mark sitt.

Leiknir R. 2:0 Leiknir F. opna loka
90. mín. Leiknir F. fær víti Brotið á Kristni Snjólfssyni eftir góðan sprett.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert