„Það er alltaf sárt að tapa“

Caroline Murray og Kristrún Kristjánsdóttir eigast við í leiknum í …
Caroline Murray og Kristrún Kristjánsdóttir eigast við í leiknum í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Caroline Murray var á skotskónum fyrir FH þegar liðið tapaði fyrir Stjörnunni, 3:1, í sjöttu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í Hafnarfirði í kvöld. Hún segir mun meira búa í liðinu.

„Þetta er mjög hæfileikaríkt lið og við vissum það fyrir leikinn. Það var margt jákvætt í okkar leik en það er klárlega ýmislegt sem við þurfum að átta okkur á fyrir næstu leiki. Við áttum nokkur góð tækifæri og við verðum að reyna að byggja á því fyrir framhaldið,“ sagði Murray í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Það er mikið um meiðsli í herbúðum FH og liðið hafði til að mynda aðeins fimm varamenn á bekknum í kvöld – þar af tvo markverði.

„Já, því miður er mikið um meiðsli hjá okkur. Mér fannst þær sem hlupu í skarðið í þessum leik standa sig mjög vel og það var mjög gaman að sjá,“ sagði Murray. FH er með níu stig eftir sex leiki, en er Murray ánægð með uppskeruna hingað til?

„Það var gott að byrja deildina vel, en það er alltaf sárt að tapa. Við vonumst til þess að komast aftur á sigurbraut,“ sagði Caroline Murray við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert