Það var mikil gleði í dag

Úlfur Blandon, þjálfari Vals.
Úlfur Blandon, þjálfari Vals. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úlfur Blandon, þjálfari Vals, var að vonum kátur eftir öruggan 5:1 sigur á Grindavík í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag. Sigurinn var aldrei í hættu og segir Úlfur hafa verið lagt upp með að skora snemma. 

„Við erum hrikalega ánægð með þetta. Við vorum góðar í dag, við spiluðum á okkar styrkleikum, skoruðum fullt af flottum mörkum og það var mikil gleði í dag. Við ætluðum að reyna að breyta til og koma með mark á fyrstu mínútunum og sjá hvort við gætum ekki reynt að hafa þetta aðeins með okkur í liði.“

Valsliðið var stórhættulegt í föstum leikatriðum í dag. 

„Við æfðum það í gær og við ætluðum að setja mark úr föstu leikatriði í dag, við erum með þó nokkrar horn- og aukaspyrnur í okkar vopnabúri sem nýttust í dag. Við skoruðum þrjú mörk úr föstum leikatriðum, svo ég er ánægður með það.“

Margrét Lára Viðarsdóttir var tekin af velli í síðari hálfleik, en hún var alls ekki sátt við það. 

„Við erum með tvo leiki í næstu viku, það er nóg af leikjum fram undan og við þurfum að hafa okkar bestu leikmenn klára í slaginn. Ef við fáum tækifæri til að hvíla þá, þá gerum við það,“ sagði Úlfur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert