„Þetta á ekki að gerast“

Ian Jeffs.
Ian Jeffs. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er alltaf svekkjandi að tapa leik og mér fannst, miðað við hvernig leikurinn spilaðist í dag, að það væri jafnteflislykt af honum,“ sagði Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, við mbl.is eftir 3:1-tap gegn Þór/KA í sjöttu umferð Pepsi-deildar kvenna fyrr í dag.

„Þær áttu mikið af skotum fyrir utan teig og við komumst í tækifæri til að búa eitthvað til. Það leit út fyrir að þetta væri að fjara út í 1:1 jafntefli en ef þú nærð ekki að verjast föstum leikatriðum og eins gerðist áðan, þá færðu bara á þig mark.“

Jeffs er afar ósáttur við leikmenn sína eftir markið sem Stephany Mayor skoraði eftir hornspyrnu á 81. mínútu.

„Þetta á ekki að gerast, ég er ósáttur og óánægður með það. Við fórum vel yfir þetta á æfingasvæðinu og að fá mark á sig eftir að hafa farið svona vel yfir þetta, ég er bara mjög pirraður með það.“

Nú þegar ÍBV hefur spilað  sex leiki í deildinni er uppskeran 10 stig. Er Ian Jeffs sáttur með byrjunina á mótinu?

„Ég vil vera ofar. Ég vil berjast við toppliðin. Við sýndum það í dag, við sýndum það gegn Stjörnunni og í 70 mínútur gegn Val að við getum alveg verið að berjast við þessi betri lið í deildinni. En við verðum alltaf bara lið um miðja deild ef við höldum áfram þessu einbeitingarleysi á svona mikilvægum augnablikum eins og gerðist í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert