Valur ekki í vandræðum með Grindavík

Arna Sif Ásgrímsdóttir, miðvörður Vals, skallar boltann í átt að …
Arna Sif Ásgrímsdóttir, miðvörður Vals, skallar boltann í átt að marki Grindavíkur en Linda Eshun er í baráttu við hana. mbl.is/Ófeigur

Valskonur unnu þægilegan 5:1 sigur á Grindavík í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Valsliðið var töluvert betri aðilinn allan leikinn og hefði sigurinn getað orðið stærri.

Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en Arna Sif Ásgrímsdóttir skoraði fyrsta markið eftir 18 mínútur. Hún skallaði þá hornspyrnu Vesnu Smiljkovic í markið af stuttu færi. Valskonur virtust fá mikið sjálfstraust við markið og Margrét Lára Viðarsdóttir tvöfaldaði forskot Vals tólf mínútum síðar. Emma Mary Higgins í marki Grindavíkur var þá steinsofandi með boltann í eigin vítateig, Margrét náði honum af henni og skoraði auðvelt mark.

Grindavík fékk líflínu undir lok fyrri hálfleiks, þegar Hlín Eiríksdóttir braut á Rilany innan teigs og Sara Hrund Helgadóttir skoraði úr öryggi úr vítinu. Valur náði hins vegar aftur tveggja marka forskoti fyrir hlé. Málfríður Erna Sigurðardóttir skoraði þá af stuttu færi eftir hættulega aukaspyrnu frá Vesnu og var staðan því 3:1 í hálfleik.

Valskonur byrjuðu seinni hálfleikinn eins og þær enduðu þann fyrri, með því að skora. Elín Metta Jensen hamraði þá boltanum í netið úr þröngu og erfiðu færi og átti Emma Higgins enga möguleika í markinu. Ariana Calderon skoraði svo fimmta markið er hún skallaði í netið af stuttu færi eftir að Arna Sif skallaði á hana eftir hornspyrnu.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is.

Valur 5:1 Grindavík opna loka
90. mín. Leik lokið Sannfærandi sigur Vals.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert