Var orðinn svartsýnn með Dagnýju

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu, mun velja lokahópinn sem fer á Evrópumótið í Hollandi í sumar 22. júní en hann valdi í dag 24 manna landsliðshóp fyrir vináttuleikina á móti Írlandi og Brasilíu eins og kom fram á mbl.is fyrr í dag.

Spurður eftir fréttamannafundinn í höfuðstöðvum KSÍ í dag hversu margir leikmenn eru enn inni í stóru myndinni fyrir Evrópumótið sagði Freyr:

„Ég mundi segja að það séu sex til sjö leikmenn fyrir utan þennan 24 manna hóp sem ég valdi í dag sem koma til greina. Þetta eru leikmenn eins og Hólmfríður Magnúsdóttir, Sandra María Jessen, Guðmunda Óladóttir, Harpa Þorsteinsdóttir og fleiri leikmenn sem við erum að fylgjast með,“ sagði Freyr en umræddir fjórir leikmenn hafa átt við meiðsli að stríða og Harpa er að jafna sig eftir barnsburð og engin þeirra er í hópnum sem mætir Írum og Brasilíumönnum.

Freyr hefur þurft að glíma við talsverð meiðsli leikmanna sinna í vetur og fyrir utan þá leikmenn sem áður hafa verið nefndir eru Elísa Viðarsdóttir og Dóra María Lárusdóttir báðar úr leik eftir að hafa slitið krossband en góðu tíðindin eru þau að Dagný Brynjarsdóttir er öll að koma til eftir erfið meiðsli sem hún hefur þurft að glíma við undanfarna mánuði.

Dagný Brynjarsdóttir.
Dagný Brynjarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leit mjög illa út með Dagnýju fyrir tveimur mánuðum

Freyr segir að fyrst hafi verið haldið að um brjósklos væri að ræða hjá Dagnýju en síðar kom í ljós að þetta voru meiðsli sem tengjast mjaðmagrindinni og festum í kringum lífbeinið og ekki ólík þeim meiðslum sem Alfreð Finnbogason var að kljást við. Alfreð var lengi að jafna sig af þeim.

„Hvað Dagnýju til að mynda varðar þá leit þetta mjög illa út fyrir tveimur mánuðum síðan þegar hún fór í fyrri sprautumeðferðina. Hún virkaði bara ekki neitt og við vorum komin upp við vegg með meðferðarúrræði fyrir hana. Ég var svartsýnn varðandi hana og það verður að segjast eins og er að með Dagnýju, Hörpu og Hólmfríði voru þetta þungavigtarleikmenn í okkar leikkerfi. Þetta var eitt af því sem ýtti mér undir aðrar leikfræðilegar pælingar. Það er frábært að Dagný er komin í það ástand sem hún er í dag og þær Sandra og Hólmfríður eru komnar inn á völlinn. Svo verðum við bara að sjá hvað þær gera á næstu vikum,“ sagði Freyr.

Freyr segist vera gríðarlega ánægður með lokaverkefnin í undirbúningi landsliðsins fyrir EM en Ísland mætir Írlandi í Dublin 8. júní og tekur síðan á móti frábæru liði Brasilíu á Laugardalsvellinum 13. júní en miðasala á þann leik hefst 31. þessa mánaðar.

„Það sem ég vildi var að fá heimaleik í síðasta leik okkar fyrir EM, mæta sterku liði og laða að fullt af fólki á leikinn. Með þessum leikjum og þá kannski sérstaklega leiknum á móti Brasilíu fæ ég svör hvað varðar liðið og eins að fá fólk til að hafa áhuga á okkur og veita okkur stuðning. Þetta eru tveir ólíkir mótherjar. Írarnir eru grjótharðir, eru góðir í föstum leikatriðum og skipulagðir og brasilíska liðið er frábært sóknarlið sem jafnan skorar mörg mörk í hverjum leik. Ég fæ með þessum leikjum alla flóruna sem er mjög gott,“ segir Freyr.

Ætlar að spila leikkerfið 3-4-3

Freyr hefur ákveðið að keyra á leikkerfinu 3-4-3 og segir hann að þetta kerfi sé sniðið fyrir leikmannahópinn sem hann hefur yfir að ráða.

„Við ætlum að setja alla orkuna í þetta leikkerfi og vera ekki að rugla í kollinum á leikmönnum heldur leyfa þeim að einbeita sér að smáatriðunum. Ég hef fulla trú á að þetta leikkerfi henti okkur mjög vel,“ sagði Freyr Alexandersson.

Síðasti leikur landsliðsins var gegn Hollendingum ytra í síðasta mánuði þar sem Ísland steinlá, 4:0, og sá aldrei til sólar. Freyr og hans aðstoðarmenn hafa greint þann leik í tætlur og hann segir mikinn lærdóm hafa verið dreginn af honum.

„Það voru nokkur atriði sem ég var búinn að vera óánægður með fyrir leikinn. Ég vissi það fyrir leikinn og var búinn að segja við Guðna formann og Ásmund minn aðstoðarmann að annaðhvort smellur þetta allt saman hjá okkur eða við fáum skellinn. Það yrði hvort tveggja jákvætt því við gætum þá unnið út frá því. Það hljómar kannski fáránlegt að það sé jákvætt að fá skell eins og raun bar vitni en við fengum kristaltær svör og svo er það okkar að vinna út frá þeim í verkefnunum sem við erum að fara í með þessum leikjum í júní,“ sagði Freyr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert