Köstum þessu frá okkur

Srdjan Tufegdzic.
Srdjan Tufegdzic. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Srdjan Tufegdzic, Tufa, þjálfari KA, þurfti annan leikinn í röð að horfa á eftir stigum hjá sínum mönnum í dag þegar KA og Víkingur Reykjavík skildu jöfn í 5. umferð Pepsi-deildar karla, 2:2.

Eftir að KA komst í 2:0 misstu norðanmenn mann af velli og Víkingar náðu að jafna í blálokin.

Hvað geturðu sagt eftir þetta, Tufa?

„Þetta er bara sorglegt hjá okkur, mjög gremjulegt eftir að hafa stjórnað leiknum í 75 mínútur. Við köstum þessu bara frá okkur og gerum ekki nógu vel. Við eigum að loka leiknum betur í stöðunni 2:0 og tuttugu mínútur eftir.

Þið virtust alveg með þetta þar til þið fenguð á ykkur vítið og rauða spjaldið.

„Já, ég þarf nú að sjá það betur. Við vorum að hræra óþarflega mikið í stöðunum fram á við sem var óþarfi. Við verðum bara að læra af þessu og gera betur í næstu leikjum.“

Þú gerir tvær skiptingar í stöðunni 2:0. Voru menn búnir á því?

„Hrannar var greinilega orðinn þreyttur enda ekki búinn að spila mikið í sumar. Við þurftum ferskar lappir inn á völlinn og það er hundfúlt eins og fyrir Bjarka Þór að vera svo rekinn strax útaf. Svona er bara fótboltinn. Það gengur ekki alltaf það sem maður planar.“

Þú og þínir menn haldið ótrauðir áfram.

„Jú ég er alltaf ánægður með strákana og þeir leggja sig fram. Þrátt fyrir að hafa tapað þremur stigum á lokamínútunum í síðustu tveimur leikjum. Við erum að spila vel og gefum allt í leikina. Það er fínn dampur á liðinu og við höfum trú á því sem við erum að gera. Það er bara að halda áfram og klára leikina betur,“ sagði hinn magnaði Tufa að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert