Nær Logi að kveikja neista í Víkingi?

Logi Ólafsson er mættur til leiks á ný.
Logi Ólafsson er mættur til leiks á ný. mbl.is/Golli

Víkingur Reykjavík leikur sinn fyrsta leik eftir að Logi Ólafsson tók við stjórnartaumunum hjá liðinu af Milos Milojevic í vikunni þegar liðið mætir KA í fimmtu umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu norðan heiða í dag. 

Mikið hefur gengið á í Víkinni síðustu vikuna, en Milos sagði upp störfum á föstudaginn í síðustu viku eftir að ósætti kom upp í þjálfarateymi liðsins og ósætti sem gaus upp milli stjórnar knatstpyrnudeildar Víkings og Milos.

Logi Ólafsson, sem gerði Víking að Íslandsmeisturum árið 1991, var ráðinn þjálfari Víkings í miðri viku, en hann hafði legið í dvala sem þjálfari síðan honum var sagt upp sem þjálfari Stjörnunnar eftir tímabilið 2013.

Víkingur fór vel af stað í deildinni í sumar, en liðið lagði KR að velli, 2:1, í fyrstu umferð deildarinnar. Eftir sigurinn í Vesturbænum hefur liðið hins beðið ósigur gegn Grindavík, ÍBV og Breiðabliki í deildinni.

KA hefur hins vegar farið vel af stað í deildinni í sumar, en liðið hefur sjö stig í þriðja sæti deildarinnar. KA hefur unnið sigra gegn Breiðabliki og Fjölni og gerði síðan jafntefli gegn FH. 

KA mætir til leiks með sárgrætilegt tap gegn Stjörnunni í síðasta deildarleik liðsins í farteskinu, en Eyjólfur Héðinsson skoraði sigurmark Stjörnunnar í 2:1-sigri liðsins á lokaandartökum leiksins.

Leikur KA og Víkings sem háður verður á Akureyrarvellinum og hefst klukkan 14.00 í dag verður í beinni textalýsingu á mbl.is.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert