Slæmar minningar Skagamanna

Sérkennilegt návígi í viðureign ÍBV og ÍA.
Sérkennilegt návígi í viðureign ÍBV og ÍA. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eyjamenn og Skagamenn hafa marga hildi háð í efstu deild karla í knattspyrnu en það er að vonum langt síðan KA og Víkingur R. hafa mæst á þeim vettvangi. Þessi lið mætast í tveimur fyrstu leikjum fimmtu umferðar Pepsi-deildar karla í dag.

ÍBV fær stigalausa Skagamenn í heimsókn klukkan 16 og þeir gulklæddu eiga slæmar minningar frá síðasta leik liðanna á Hásteinsvelli. Hann var í fyrstu umferðinni í fyrra og ÍBV vann 4:0. Simon Smidt, Aron Bjarnason, Sindri Snær Magnússon og Charles Vernam skoruðu en Sindri er sá eini þeirra sem er eftir í liði Eyjamanna. ÍA náði að hefna í seinni leiknum á Akranesi og vann 2:0 þar sem Garðar B. Gunnlaugsson og Ármann Smári Björnsson skoruðu mörkin.

ÍA hefur aðeins unnið einu sinni í síðustu fimm heimsóknum til Eyja í deildinni en það var árið 2015 þegar Garðar B. Gunnlaugsson og Darren Lough skoruðu í 2:1 sigri þeirra. Gunnar Heiðar Þorvaldsson gerði mark ÍBV.

ÍBV og ÍA mættust fyrst í efstu deild árið 1969 og þá unnu Skagamenn báða leikina, 2:1, á Akranesi og 3:2 í Eyjum. Matthías Hallgrímsson skoraði þrennu fyrir ÍA í Eyjum og Guðjón Guðmundsson  gerði bæði mörk ÍA í heimasigrinum. Viktor Helgason og Ólafur Sigurvinsson skoruðu fyrir ÍBV á Hásteinsvelli og Haraldur Júlíusson gerði markið á Akranesi.

Félögin hafa mæst 70 sinnum í deildinni. ÍA hefur unnið 36 leiki en ÍBV 25.

Síðast unnu bæði á útivelli

KA lék síðast í deildinni árið 2004 og þá voru Víkingar þar líka. Liðin unnu hvort annað á útivelli, Atli Sveinn Þórarinsson tryggði KA 1:0 sigur í Fossvogi en Víkingar unnu 2:0 á Akureyrarvelli þar sem Steinþór Gíslason og Daníel Hjaltason skoruðu mörkin.

Þá voru liðin tólf ár frá síðustu leikjum liðanna í þessari deild. KA vann báða leiki þeirra árið 1992, 1:0 á Akureyri og 2:0 í Fossvogi, og Ormarr Örlygsson gerði öll mörk KA í þessum leikjum.

KA og Víkingur mættust fyrst á Íslandsmótinu árið 1929 þegar KA sendi lið til leiks í fyrsta sinn. Víkingar unnu þann leik á Melavellinum, 3:0. Það var ekki fyrr en 1978 sem þau mættust aftur. Alls hafa KA og Víkingur mæst 23 sinnum í efstu deild, Víkingur hefur unnið ellefu leiki en KA níu. 

Síðasta  viðureign KA og Víkings á Íslandsmóti var árið 2013 þegar þau voru í 1. deildinni. Víkingur vann þá 1:0 á Akureyri þar sem Pape Mamadou Faye skoraði sigurmarkið en þau gerðu síðan 0:0 jafntefli í Reykjavík.

Leikur liðanna hefst á Akureyrarvelli klukkan 14.00 í dag. KA er með 7 stig en Víkingur er með 3 stig og Logi Ólafsson stýrir liðinu í fyrsta skipti í 25 ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert