Blendnar tilfinningar í mínu brjósti

Kennie Chopart, leikmaður KR, í baráttu við Jonathan Hendrickx, leikmann …
Kennie Chopart, leikmaður KR, í baráttu við Jonathan Hendrickx, leikmann FH, í leik liðanna í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það eru blendnar tilfinningar hjá mér eftir þennan leik. Ég er svekktur með að hafa bara náð í eitt stig, en að sama skapi sáttur við stigið úr því sem komið var,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 2:2-jafntefli liðsins gegn FH í fimmtu umferð úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar, á Alvogen-vellinum í kvöld.

KR-ingar hófu leikinn af miklum krafti, en líkt og í leiknum gegn Val í síðustu umferð náði liðið ekki að nýta sér þau færi sem liðið skapaði og var refsað með marki hinum megin á vellinum.

„Við þurfum að vera gagnrýnir á okkur sjálfa eftir þessa tvo leiki. Þeir þróast á svipaðan hátt. Við erum sterkari aðilinn í upphafi leiks, en fáum á okkur mark í fyrstu atlögum andstæðingsins. Við erum að leka mörkum of auðveldlega og verðum að laga það,“ sagði Willum Þór um spilamennsku KR-liðsins.

KR er í fimmta sæti deildarinnar með sjö stig eftir þetta jafntefli og er sex stigum á eftir Stjörnunni sem situr á toppi deildarinnar.

„Ég er ekki sáttur við stöðuna, en verð hins vegar að sætta mig við hana. Þó að ég sé ekki sáttur við stöðuna þá er ég heilt yfir sáttur við spilamennsku liðsins í sumar. Við verðum að læra af þeim mistökum sem við höfum gert og halda áfram að bæta okkar leik. Ef við gerum það þá fara sigrarnir að detta í hús,“ sagði Willum Þór enn fremur um frammistöðu KR í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert