Gott fyrir hausinn eftir erfið meiðsli

Hólmfríður Magnúsdóttir er að komast á fullt með KR eftir …
Hólmfríður Magnúsdóttir er að komast á fullt með KR eftir erfið meiðsli. mbl.is/Golli

„Þetta er mjög sætur sigur, við þurftum á þessu að halda og það var frábært að fá þrjú mörk því það gefur okkur sjálfstraust fyrir næsta leik,“ sagði Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður KR, eftir 3:1 sigur á Fylki í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu í dag. KR fékk sín fyrstu stig í sumar með sigrinum. 

Hólmfríður byrjaði sinn fyrsta leik á tímabilinu, en hún er enn að jafna sig af ökklabroti. Hún var ánægð með að ná 75 mínútum í dag og að hafa skorað tvö mörk. 

„Ég er góð og ánægð með að ná 75 mínútum. Það er korteri meira en ég bjóst við og ég er ánægð með að vera á uppleið og að hver dagur vinnur með mér. Ég er að verða betri og betri og ég er sátt með að koma meiðslalaus af velli.“

„Það skemmir ekki fyrir að skora tvö mörk. Það er gott fyrir hausinn eftir svona erfið meiðsli, ég hef trú á að ég geti farið inn í næsta leik og haldið áfram að gera góða hluti.“

Hólmfríður viðurkennir að annað markið sitt í leiknum hefði ekki átt að standa. 

„Ólína skallaði hann til mín og ég er nokkuð viss um að boltinn hafi farið út af, ég held hins vegar alltaf áfram því dómarinn flautaði ekki. Markmaðurinn var aðeins of framarlega í hinu markinu og mér tókst að skora þó að skotið hafi ekki verið fast,“ sagði hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert