Magni á toppnum – þrjú rauð á Eskifirði

Páll Viðar Gíslason er með lið Magna í efsta sæti …
Páll Viðar Gíslason er með lið Magna í efsta sæti 2. deildar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magni frá Grenivík er á toppi 2. deildar karla í knattspyrnu að loknum fjórum umferðum en Magnamenn lögðu Sindra frá Hornafirði, 2:1, á Grenivík í gær.

Magni, undir stjórn Páls Viðars Gíslasonar, er með 10 stig eftir fyrstu fjóra leikina. Kristinn Þór Rósbergsson skoraði bæði mörk liðsins en Mate Paponja gerði mark Hornfirðinga sem hafa ekki unnið leik og eru með 2 stig. Þetta  var fyrsti heimaleikur Magna sem hafði spilað þrjá fyrstu leikina á útivöllum og staða liðsins er enn athyglisverðari fyrir vikið.

Afturelding er komin í annað sætið með 9 stig eftir stórsigur á Tindastóli, 5:1, og Mosfellingar hafa heldur betur spýtt í lófana eftir skell gegn Völsungi í fyrstu umferð. Magnús Már Einarsson og Ágúst Leó Björnsson gerðu tvö mörk hvor fyrir Aftureldingu og Halldór Jón Sigurður Þórðarson eitt en Neil Slooves skoraði mark Sauðkrækinga sem eru án sigurs og með 2 stig en þeir unnu 3. deildina með yfirburðum í fyrra.

Vestri er í þriðja sæti, einnig með 9 stig, og vann Völsung 3:2 á Ísafirði. Gilles Mbang Ondo, markakóngur úrvalsdeildar með Grindavík árið 2010, skoraði sigurmarkið á fimmtu mínútu í uppbótartíma og fullkomnaði endurkomu Vestfirðinga. Völsungur komst nefnilega í 2:0 í seinni hálfleik með mörkum frá Sæþóri Olgeirssyni og Geirlaugi Árna Kristjánssyni. Vestri jafnaði með mörkum frá Kevin Schmidt og Nikulási Jónssyni. Þetta var þriðja tap Völsungs í röð eftir sigurinn á Aftureldingu í fyrstu umferð.

Njarðvík er enn taplaus, burstaði Fjarðabyggð 7:2 á Eskifirði og er með 8 stig. Mikið gekk á fyrir austan þar sem heimamenn fengu þrjú rauð spjöld og misstu leikinn úr höndum sér eftir að staðan var 2:2 í byrjun síðari hálfleiks. Milos Peric markvörður var rekinn af velli rétt fyrir hlé, þjálfarinn Dragan Kristinn Stojanovic var rekinn af bekknum um miðjan síðari hálfleik og Jóhann Ragnar Benediktsson fékk rauða spjaldið 10 mínútum fyrir leikslok. Bergþór Ingi Smárason gerði þrennu fyrir Njarðvík, Stefán Birgir Jóhannesson, Theodór Guðni Halldórsson, Sigurður Þór Hallgrímsson og Krystian Wiktorowicz gerðu eitt mark hver. Milos Vasiljevic og Víkingur Pálmason skoruðu fyrir Fjarðabyggð sem situr á botninum með eitt stig.

Víðir og KV skildu jöfn í Garði, 2:2, en Víðismenn voru manni færri allan seinni hálfleikinn eftir að Patrik Snær Atlason fékk rauða spjaldið. Hann og Daníel Gylfason komu Víði í 2:0 en KV jafnaði með mörkum Enoks Ingþórssonar og Jóns Kára Ívarssonar. Víðir er með 7 stig og KV 5.

Loks gerðu grannarnir Höttur og Huginn 0:0 jafntefli á Vilhjálmsvelli á Egilsstöðum. Höttur er með 5 stig en Huginn er enn án sigurs með 3 stig.

Gilles Mbang Ondo leikur nú með Vestra og skoraði sigurmarkið …
Gilles Mbang Ondo leikur nú með Vestra og skoraði sigurmarkið gegn Völsungi. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert