Stjarnan eða Valur á toppnum?

Þórir Guðjónsson og Ævar Ingi Jóhannesson í leik Fjölnis og …
Þórir Guðjónsson og Ævar Ingi Jóhannesson í leik Fjölnis og Stjörnunnar í fyrra. mbl.is/Golli

Ljóst er að annaðhvort Stjarnan eða Valur verður á toppi Pepsi-deildar karla í knattspyrnu þegar fimmtu umferðinni lýkur í kvöld. Þau eru jöfn og efst með 10 stig en eiga bæði erfiða útileiki fyrir höndum.

Mótherjarnir, Fjölnir og Grindavík, eru í fjórða og fimmta sæti með 7 stig og því gæti staðan orðið þannig að liðin fjögur sem þarna mætast innbyrðis verði öll efst og jöfn með tíu stig þegar flautað verður til leiksloka. Stjarnan yrði þó í nær öllum tilvikum á toppnum ef lyktir mála verða þannig.

Stjarnan sækir Fjölni heim klukkan 19.15 og hefur þann bakgrunn að hafa ekki tapað í Grafarvogi undanfarin þrjú ár. Stjarnan vann þar í fyrra, 1:0, með marki frá Daníel Laxdal og liðin gerðu jafntefli á Fjölnisvelli næstu tvö ár á undan. Stjarnan vann líka heimaleikinn við Fjölni í fyrra, 2:1, þar sem Halldór Orri Björnsson gerði bæði mörk Stjörnunnar en Martin Lund skoraði fyrir Fjölni.

Í átta viðureignum félaganna í efstu deild hefur Stjarnan unnið þrisvar og Fjölnir tvisvar en markatalan er hins vegar Fjölni í hag, 10:9.

Val hefur gengið vel í Grindavík

Valsmenn fara til Grindavíkur og hafa ekki komið þangað síðan 2012 þegar Grindavík var síðast í deildinni. Þá hafði heimaliðið betur, 2:0, þar sem Pape Mamadou Faye og Matthías Örn Friðriksson skoruðu. Valur vann hins vegar 4:1 á Hlíðarenda þar sem Indriði Áki Þorláksson gerði tvö markanna.

Valsmönnum vegnaði annars vel á Grindavíkurvelli næstu ár þar á undan og unnu þar fimm leiki af sjö á árunum 2003 til 2011. Þá kunni Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, alltaf vel við sig í Grindavík á árum áður en hann skoraði þrívegis í heimsóknum Vals þangað laust fyrir og eftir aldamót.

Minningar Valsmanna frá Grindavík eru þó ekki allar góðar. Það var á Grindavíkurvelli sem Valur féll í fyrsta skipti úr efstu deild haustið 1999 þegar liðið tapaði þar 3:1 í lokaumferð Íslandsmótsins.

Tvö neðstu liðin á Kópavogsvelli

Á Kópavogsvelli tekur Breiðablik á móti Víkingi frá Ólafsvík kl. 18 en eftir úrslit gærdagsins eru þetta tvö neðstu lið deildarinnar með 3 stig hvort. Milos Milojevic stýrir Blikum í fyrsta skipti en hann var ráðinn þjálfari í stað Arnars Grétarssonar á mánudaginn var.

Ólafsvíkingar unnu óvæntan sigur á Blikum í Kópavogi í fyrra, 2:1, í fyrstu umferð mótsins. Þá skoruðu Þorsteinn Már Ragnarsson og Kenan Turudija fyrir Víking en Andri Rafn Yeoman fyrir Breiðablik. Fyrir vestan síðar um sumarið vann Breiðablik hins vegar 2:0 og þá skoruðu Árni Vilhjálmsson og Arnþór Ari Atlason.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert