Þessi kafli drap okkur

Albert Brynjar Ingason, Leifur Andri Leifsson og Birkir Valur Jónsson …
Albert Brynjar Ingason, Leifur Andri Leifsson og Birkir Valur Jónsson í leiknum í dag. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK sagði eftir ósigurinn gegn Fylki, 0:3, í 1. deild karla í knattspyrnu, Inkasso-deildinni, í Kórnum í dag að slæmur fimmtán mínútna kafli hefði gert útslagið.

Afmælissigur og Fylkir á toppnum.

„Þessi kafli drap okkur bara. Við stóðum þokkalega í þeim að öðru leyti og byrjuðum leikinn vel fyrstu 20 mínúturnar. Svo kom þessi kafli þar sem þeir gerðu þrjú mörk og það var erfitt að stíga upp úr því en mér fannst við sýna karakter í seinni hálfleik með því að halda hreinu og við fengum fullt af sénsum til að skora. Við gerðum þetta klassíska, komum inní seinni hálfleikinn eins og staðan væri 0:0 og markmiðið var að vinna hann. Við gáfum þeim leik en þessi kafli drap okkur," sagði Leifur Andri við mbl.is.

HK er með sex stig eftir fjóra leiki og Leifur sagði að það væri ásættanleg staða.

„Já, ég er tiltölulega sáttur en það er mest svekkjandi að vera búnir að tapa tveimur heimaleikjum. Við viljum gera húsið okkar að sterku vígi, við eigum að nýta okkur betur þá sérstöðu að spila innanhúss og það er því leiðinlegt að hafa tapað hérna tvisvar. Við þurfum að bæta úr því. Við eigum ágæta möguleika í þessari deild eins og aðrir, hún er mjög jöfn. Fylkir á að vera sterkasta liðið en mér fannst þeir ekki vera neitt miklu betri en við svona heilt yfir þó úrslitin hafi verið þessi. Við vorum fínir að mörgu leyti í dag, verst að vera það ekki í 90 mínútur en við getum verið ánægðir með 75 mínútur af þessum leik," sagði Leifur Andri Leifsson.

Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK.
Leifur Andri Leifsson fyrirliði HK. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert